Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:02]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langaði til að ýta á eftir frekari svörum hjá hv. þingmanni varðandi stöðu sveitarfélaganna af því að ég veit að honum er mjög umhugað um hana. Við vorum áðan að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra í raun virða sveitarfélögin hálfpartinn að vettugi í andsvörum. Hann vildi meina að þetta kæmi ríkissjóði einfaldlega ekki við, þetta væru bara slæmar rekstrarákvarðanir sveitarfélaganna, snerist bara um launahækkanir. Hann virtist ekki átta sig á því að fjárfestingarstigið á sveitarfélagastiginu er mjög slæmt núna og næstu árin einmitt út af málaflokki fatlaðs fólks. Það bitnar auðvitað líka á þjónustunni við umræddan hóp. Mig langar til að inna hv. þingmann eftir skoðun hans og Framsóknarflokksins á þessari stöðu, hvort staða sveitarfélaganna komi ríkisstjórninni ekki við. Sér eitthvað fyrir endann á þessari stöðu í ljósi þess að ekki er gert ráð fyrir neinum breytingum eða að neitt fjármagn verði flutt þarna á milli á næsta ári miðað við fjárlagafrumvarpið eins og það stendur í dag? Er þetta í takt við áherslur Framsóknarflokksins um að styrkja þetta sveitarstjórnarstig?