Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:03]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa fyrirspurn. Þetta er alveg hárrétt. Eins og ég kom inn á í minni ræðu og eftir að hafa verið í sveitarstjórn í töluvert langan tíma þá veit ég að það einstaka mál, sú staða sem uppi er núna varðandi málefni fatlaðra, sem ég tilgreindi í minni ræðu og hv. þingmaður spurði mig sérstaklega um, er farið að hafa verulega íþyngjandi áhrif á rekstur sveitarfélaga. Það er nánast samasemmerki á milli þess halla sem er á málaflokki fatlaðs fólks og halla A-sjóðs sveitarfélaga. Þetta verkefni er af þeirri stærðargráðu fyrir sveitarfélögin að það verður einhvern veginn að stíga inn í það og ríkið verður að koma inn í það. Maður sér svo greinilega með lagabreytingu árið 2018 að þar er stökkið stóra, það hefur eitthvað gerst þar sem menn hafa ekki séð fyrir. Það er bara mjög mikilvægt fyrir sveitarfélögin að ríkið stígi inn í þetta verkefni, komi til móts við sveitarfélögin, því að ég sé ekki alveg fyrir hvernig þetta muni enda öðruvísi. Ef þessi halli heldur áfram að aukast eins og hann hefur verið að gera, úr 9 milljörðum í 13 milljarða, hver verður hann 2022? Það kemur að þeim tímapunkti að sveitarfélögin munu ekki ráða við verkefnið. Hvar verðum við stödd þá? Ekki viljum við að við förum að skera niður þjónustu til þessa fólks. Það er það síðasta sem við viljum gera. Það er það síðasta sem sveitarfélögin vilja gera. Ég er alveg viss um að þau munu skera niður allt mögulegt áður en þau fara þá leið.