Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:21]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa fyrirspurn. Þetta er alveg rétt sem hann segir, stóra spurningin verður hvað sveitarfélögin eiga að gera. Það er búið að setja ákveðna línu í þessum fjárlögum. En ég bara segi enn og aftur: Ég hef fylgst vel með sveitarfélögum og fjármálum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra þar sem ég hef verið lengi í sveitarstjórn og það hafa komið hólar og hæðir og brekkur upp og niður þau ár sem ég hef verið í sveitarstjórn. Það hefur bara verið með mjög ólíkum hætti sem sveitarfélögin í kring hafa tekist á við þær breytingar, þau verkefni, einfaldlega vegna þess að sveitarfélögin eru bara ólík í eðli sínu að stærð og getu. Sum sveitarfélög eiga engan annan kost en að hækka en önnur geta farið í miklu minni hækkanir og haldið í horfinu.

Mig langar að koma inn á launin fyrst hv. þingmaður var að tala um launahækkanir sveitarfélaga. Ég veit að í mjög mörgum sveitarfélögum stungu launahækkanir fastar en Covid-aðgerðirnar.