Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:51]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Maður veltir því fyrir sér hvað sé sanngjarnt, okkur getur einmitt líka greint á um það. Hvað er sanngjarnt gjald af auðlind, hvaða auðlind sem er, hvort sem það er sjávarauðlindin eða einhver önnur auðlind? Gjaldið er núna afkomutengt eins og við þekkjum og ég held að það eigi að vera afkomutengt áfram. Það á eftir að koma í ljós hvort við getum náð saman um hvort prósentan sem við erum með sé sú eina rétta. Ég tel að það sé mjög mikilvægt það sem við erum núna að gera, að setja á og hækka gjaldstofninn á fiskeldið. Ég tel að það sé mjög mikilvægt vegna þess að það er vaxandi grein og gerir ekkert annað en að vaxa til framtíðar. Þá verður það eitt af því sem við erum a.m.k. ekki að elta eftir á. Án þess að gefa kannski eitthvað nánar út um það þá tel ég að það sé skynsamlegt að afkomutengja gjaldið. Ég myndi vilja færa það nær í tíma. (Forseti hringir.) Við erum núna með tveggja ára tímafaktor, ég tel að það sé of langt. Svo vil ég horfa sérstaklega til sveiflukenndu stofnanna, þ.e. uppsjávarstofnanna.