Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:52]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Það verður mjög spennandi að sjá hvað kemur út úr starfi þessarar nefndar. En mig langar samt að halda því til haga að auðvitað er eina færa og besta leiðin til að gera þetta með sanngjörnum hætti sú að greinin greiði markaðsgjald. Gjald sem er fundið út á markaði út frá framboði og eftirspurn. Það er auðvitað hin sanngjarna gjaldtaka í þessu.

En aðeins að því sem hv. þingmaður kom inn á hér, sem eru rafmagnsbílarnir og aukin gjaldtaka þar. Ég hjó eftir því að hún nefndi að þar stæði til að koma með einhvers konar mótvægisaðgerðir því ég held að það sé algerlega ljóst að sú aukna gjaldtaka sem núna er fyrirhuguð muni að einhverju leyti hafa áhrif á eftirspurnina eftir rafmagnsbílum. Þótt ég skilji mætavel að menn vilji teygja sig eitthvað í þá átt að þeir sem aka um á þessum bílum standi straum af því sem það kostar að halda úti vegakerfinu, þá væri kannski betra að koma með annars konar kerfi í því. En mig langaði að spyrja hv. þingmann: Hvers konar mótvægisaðgerðir gætu það verið? (Forseti hringir.) Hvaða mótvægisaðgerðir gætu tryggt það að hugsjón VG um hröð og öflug orkuskipti í samgöngum verði að veruleika (Forseti hringir.) þrátt fyrir þetta bakslag sem augljóslega felst í þessari gjaldtöku sem verið er að boða í fjárlagafrumvarpinu?