Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:59]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Af því að ég er með svo gott fólk á kantinum þá er mér sagt að þetta sé sjálfstætt landsmarkmið miðað við 2005 fyrir árið 2030. Þá liggur það alla vega fyrir að það er þannig. Eins og kom fram hjá forsætisráðherra þá er verið að uppfæra aðgerðaáætlunina sem á að taka mið af þessum breyttu forsendum og eðli málsins samkvæmt hlýtur það að vera mjög mikilvægt. Ég tel að við þurfum að bregðast við ef okkur sýnist svo, og þá höfum við tól og tæki til að bregðast við varðandi fjárheimildir og annað slíkt. Ég held að við séum öll saman í liði með það að vilja auðvitað ná þessum markmiðum. Það er afskaplega mikilvægt fyrir heiminn allan. Og af því að hér kom fram að við skiptum litlu máli í hinu stóra samhengi, af því að við værum svo lítil þjóð, þá er ég því algerlega ósammála og mér finnst það hættulegt, þegar við erum að reyna að fá fólk í lið með okkur til að taka þátt í þessu með öllum ráðum, að orða þetta með þeim hætti. (Forseti hringir.) Því hvet ég þingmenn til að gæta orða sinna — ekki hv. þingmann sem ég er hér að tala við — þegar (Forseti hringir.) við tölum um þessi loftslagsmál og hvað þau skipta okkur öllu máli.