Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:01]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég ætla nú bara að leyfa mér að segja það að heilt yfir í gegnum fjárlögin sjáist áhrif okkar Vinstri grænna; á umhverfismálin, jafnréttis- og mannréttindamálin, örorkumálin, málefni aldraðra, heilbrigðismálin, og ég held að við höfum sett fingraför okkar mjög víða í þessu frumvarpi sem og þeim sem á undan hafa gengið á þessum fimm árum. Eðli máls samkvæmt þá setja allir flokkar sem í ríkisstjórn eru mark sitt á það með einhverjum hætti. Ég tel að við höfum náð góðum árangri. Við stöndum t.d. ofarlega á jafnréttiskvarðanum. Við erum framarlega í umhverfismálunum og ég held að þegar kemur að þessu sem við vorum að ræða áðan varðandi rafmagnsbílana, eins og ég hef áður sagt, þá verði að horfa til þess að ekki verði bakslag. Ef okkur sýnist að það verði raunin þá verðum við að bregðast við því.