Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:04]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn kom inn á ansi margt og ég ætla ekkert að fara að tíunda einhver tiltekin samtök hér. Ég var að vekja athygli á því að forsætisráðuneytið tók upp hjá sér, eins og fjárlaganefnd bendir ítrekað á á hverju ári þegar hún er að veita ársframlög — við gerum það, ársframlög, aldrei meira. Forsætisráðuneytið hefur tekið það upp á sína arma, gert það að sínu og gert samninga til viðbótar þar um, eða mun gera það þegar fjárlagafrumvarpið verður samþykkt. Það er mikilvægt að átta sig á því að þau framlög sem eru að falla niður núna, sem hv. þingmaður minntist á í ræðu sinni, eru tímabundin. Í eðli sínu eru fjárframlög sem fjárlaganefnd bætir við á hverjum tíma tímabundin. Það er undir ráðuneytunum og ráðherrunum komið að gera samninga (Forseti hringir.) á hverjum tíma telji þeir ástæðu til þess eða telji þeir sig hafa borð fyrir báru, þ.e. til lengri tíma en eins árs.