Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir prýðisræðu. Ég tek undir þau meginsjónarmið sem þarna komu fram. Ég lýsi, eins og hv. þingmaður, yfir miklum áhyggjum af því að enn skuli vera farið í útgjaldaaukningu á þeim tíma þegar ríkissjóður þarf einmitt að vera þetta raunverulega tæki sem Seðlabankinn þarf á að halda í baráttu sinni við verðbólguna. Við vorum öll sammála um það í þessum sal eftir Covid-tímann að við vildum taka stór skref strax, reyna að bremsa af þau áhrif sem Covid-faraldurinn gæti haft á íslenskt samfélag. Það gekk ágætlega, m.a. með dyggum stuðningi okkar í stjórnarandstöðunni, en það þarf að fara á bremsuna. Og það er pólitískt óþægilegt að gera það.

Ég er sammála hv. þingmanni þegar kemur að því að reyna að greina einhverja meginstefnu í þessu frumvarpi. Hún er frekar óljós. Við heyrum hér réttilega að ríkisstjórnin er að verða eins og þríhöfða þurs, það eru bara mjög mismunandi skoðanir sem settar eru fram í hinum ýmsu málum, grundvallarmálum. Talandi um t.d. það að styrkja heilbrigðiskerfið með því að nýta krafta sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks til að bæta þjónustu, nýta fjármagn betur. Það er búið að slá það út af borðinu af hálfu forsætisráðherra, sem mér finnst miður. Það sama gildir um iðnnám, sem hv. þingmaður talar um. Sagt er: Fáum fólk í iðnnám. En síðan eru allar dyr lokaðar. Ég hef miklar áhyggjur af að hagvaxtarspár miðað við Seðlabankann og Hagstofuna eru í kringum 5–6%, 5,5% á þessu ári en verða a.m.k. helmingi minni á næsta ári. Það eykur mjög mikið óvissu ríkissjóðs, m.a. til að standa undir þeim skuldbindingum og reyni að greiða niður skuldir.

Inn í þetta fléttast síðan kjarasamningar. Þar er mín spurning, hún er kannski stór: (Forseti hringir.) Hvaða áhrif og hvaða tæki hefur ríkisstjórnin, að mati hv. þingmanns, til að fara inn í kjarasamninga með ríkissjóð sem þarf að vera miklu meira strammaður af en er (Forseti hringir.) í rauninni gert í þessu fjárlagafrumvarpi? Hefur ríkisstjórnin einhverja möguleika til að koma til móts við (Forseti hringir.) einhverjar kröfur sem settar voru fram af hálfu atvinnulífsins og launþegahreyfingarinnar?

(Forseti (JSkúl): Þingmenn eru beðnir um að virða ræðutímann.)