Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:37]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína sem var um margt áhugaverð. Hann sagði m.a. að engin meginstefna ríkisstjórnarinnar væri í fjárlagaumræðunni og svo sagði hann seinna að það væri engin sameiginleg sýn og ég tek algjörlega undir það vandamál. Líka að það stefnir í mikil vandræði á vinnumarkaði og svo er það aðkoma ríkisstjórnarinnar. Ef ég væri formaður verkalýðsfélags myndi ég ekki vita hvað ríkisstjórnin er að fara með þessu fjárlagafrumvarpi. Hann nefndi líka varðandi útgjaldaaukninguna að hún væri ekki góð en ég tel að það sé mikilvægt á verðbólgutímum að verja þá verst settu, öryrkja, aldraða og tekjulága, verðbólga bitnar mest á þeim. Eins og ég lærði hagfræði, sem var ekki aðalfag mitt, er hægt að berjast gegn verðbólgunni með tvennum hætti. Það er peningamálastefnan, að hækka stýrivexti, taka peninga út úr hagkerfinu, eða þá með gjaldahækkunum eða skattahækkunum. Hv. þingmaður talaði gegn gjaldahækkunum og sagði að þær væru ekki góðar.

Í lok ræðu sinnar minntist hann svo á gjaldtöku í sjávarútvegi og spurningin er þessi: Hver er staða hv. þingmanns til veiðigjalds og hvernig vill hann berjast gegn verðbólgunni? Ég hefði haldið að það ætti að auka útgjöldin varðandi þá verst settu og auka gjaldtökuna með bankaskatti og veiðigjaldi á þá betur settu meðan farið væri í gegnum verðbólguna. En ég náði ekki alveg hvernig hv. þingmaður lítur á það. Ég er honum algerlega sammála með heilbrigðismálin líka, en hvernig stefnu myndi hann vilja sjá í baráttunni gegn verðbólgu, varðandi gjaldtökuna og fjárlögin og sérstaklega varðandi veiðigjaldið? Hvar stendur hann í því máli?