Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:03]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr hvort ég hafi séð það fyrir mér í aðdraganda síðustu kosninga að tala fyrir aukinni gjaldheimtu á þessu sviði. Kjósendur sem ég tala við eða bara fólkið sem býr í mínu kjördæmi sem ég er að tala við spyr: Af hverju er ekki unnið að því að bæta dreifikerfi raforku svo það verði kostur fyrir okkur að nota nýorkubíla, eða rafmagnsbíla í þessu tilfelli? Ég heyri á hv. þingmanni að honum er það algerlega framandi að þegar við tölum um endurskoðun á skattlagningu umferðar þá þýði það ekki endilega skattahækkanir. Við erum að tala um endurskoðun skattlagningar umferðar þar sem við breytum skattandlaginu, þar sem við erum að horfa til annarra þátta en bara þess að nota bensín og dísil eins og hefur verið á undanförnum árum. Þeir þættir eru einfaldlega að hverfa. Það þýðir einfaldlega að einhvers staðar er skurðpunktur á því hvar við getum lagt gjöld á með þeim hætti án þess að íþyngja skattgreiðendum. Í því felst megininntak endurskoðunar skattlagningar umferðar. Við ætlum ekki að íþyngja þeim, við ætlum að breyta kerfinu þannig að það verði áfram sanngjarnt með þeim hætti að við séum að endurspegla notkun á vegum og öðrum mannvirkjum sem við þurfum að byggja og þurfum virkilega áfram að halda áfram að byggja og allir eru sammála um í þessum sal. Ég þarf ekki að fara yfir það. En ég skil það vel, virðulegur forseti, að honum sé algerlega fyrirmunað að átta sig á því að það sé líka hægt að lækka aðra skatta á móti, breyta gjaldstofni annarra skatta.