Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:26]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp til fjárlaga og hér erum við að ræða í sjötta sinn síðan ég kom á þing frumvarp um fjárlög. Þegar ég kom upphaflega inn á þing og tók þátt í minni fyrstu fjárlagaumræðu þá var ég sannfærður um að ríkisstjórnin væri að gera mistök, hún væri búin að búa til þannig kerfi, almannatryggingakerfi, sem væri orðið svo bútasaumað og flókið að það væri bara hrein og klár mistök og það þyrfti að leiðrétta þau mistök og koma hlutunum í lag, taka á þessum skerðingarmálum og keðjuverkandi skerðingum sem voru að valda því að þegar verið var að bæta inn í þetta kerfi þá skilaði það sér ekki til þeirra sem mest þurfa á því að halda.

En ég er sannfærðari núna í dag um það að svo er málinu ekki háttað. Þetta er vísvitandi, viljandi uppbyggt kerfi sem fjórflokkurinn hefur byggt upp í áratugi. Nú eru þrír af þessum fjórum flokkum við völd, búnir að vera það síðustu fjögur ár og stefna á næstu fjögur og maður sér það á fjárlögunum að þeir eru að verja þetta kerfi. Verja vísvitandi og viljandi kerfi sem er byggt upp á þann hátt að ef einhvers staðar eru settar 10 krónur inn í kerfið má þakka fyrir að þegar þessar 10 krónur eru búnar að renna í gegnum almannatryggingakerfið, gegnumstreymiskerfið þar, þá fara átta af þeim beint í ríkissjóð aftur. En, þeir segja samt að viðkomandi, öryrki, ellilífeyrisþegi, hafi fengið þessar 10 krónur sem er rangt.

Enn einu sinni er verið að leika sama leikinn og þeir vita vel af því. Það er þekkt að það sem sett er inn í kerfið mun ekki skila sér til þeirra sem þeir þykjast vera að hjálpa. Þeir eru að hæla sér að því að vegna þess að þeir settu 3% hækkun inn í kerfið í sumar geti þeir sett 6% um áramótin og þá sé þetta samtals 9% hækkun í, gleymið ekki, 9,7% verðbólgu. 3% sem komu í sumar voru til að vega upp á móti þeirri hækkun sem átti að koma um síðustu áramót þar sem almannatryggingar fengu rétt rúmlega helminginn af því sem þær áttu að fá til þess bara að mæta verðbólgunni. Nei, þeir eru ákveðnir í því að segja: Núna ætlum við að hækka um 9%. Fyrir þá sem eru á lægstu bótum þýðir það í kringum 27.000 kr. Ef við tökum þessar 27.000 kr. og förum að skipta þeim niður þegar búið er að setja þær í gegnum kerfið, mega þeir sem eru að fá þessar 27.000 kr. virkilega þakka fyrir það að þeir haldi eftir 20% af þeim.

Þetta eru þeir að gera á sama tíma og þeir sjá ekkert að því, ekki nokkurn skapaðan hlut að því, að þeir sem eru með fjármagnstekjur upp á milljarð haldi eftir 780 milljónum eftir að hafa borgað 220 milljónir í fjármagnstekjuskatt. En það eru engar skerðingar hjá viðkomandi aðilum. Þeir fá að halda öllu sínu það sem eftir er. En á sama tíma eru örorkulífeyrisþegar, ellilífeyrisþegar, að fá einhverjar krónur frá lífeyrissjóði. Til að fá eitthvað úr lífeyrissjóði þarftu að hafa borgað inn í lífeyrissjóðinn af laununum þínum, þetta eru sem sagt launatekjur. Og hvaða skilaboð eru það að það skuli vera hægt að skila bara 5.000 kr. í vasann af fyrstu 25.000 kr. í lífeyrissjóð? Samt er frítekjumark upp á 25.000 kr. en það gildir bara ekki um allar gildrur almannatrygginga, vegna þess að við erum með kerfi sem gerir það að verkum að sumir bótaflokkar skerðast frá 11% og alveg upp í 65%. Þeir voru áður króna á móti krónu en eru núna í 65% á móti krónu. Þetta fannst þeim alveg svakalega flott, en það þýðir það að viðkomandi er ekki að fá þann ávinning sem hann hefur sett í lífeyrissjóðinn. En á sama tíma fær sá sem hefur fjármagnið, fengið kvóta og selt hann, arð. Hann þarf ekki að hlíta neinni skerðingu.

Hvað haldið þið að það skili þessum sama aðila í vasann ef hann hefur 125.000 kr. úr lífeyrissjóði? 25.000 kr. Spáið í skattbyrðina og skerðingarnar, að 25.000 kr. skili sér af 125.000 kr. Það eru 100.000 kr. í skatta og skerðingar. Ef það er ekki hægt að flokka þetta undir fjárhagslegt ofbeldi og eignaupptöku þá veit ég ekki hvað á að segja um þau orð. Það hlýtur líka að segja okkur að það sé vísvitandi og viljandi gert að hafa kerfið svona áratug eftir áratug og bæta í það. Þeir ætla sér ekki að bæta hag þeirra sem lifa í almannatryggingakerfinu, þeirra verst settu. Þeir ætla sér ekki að taka á kjaragliðnuninni sem er þegar komin yfir 50%. Þeir ætla sér ekki að sjá til þess að þeir sem minnst hafa eigi fyrir mat. Það hlýtur líka að vera umhugsunarefni á þessum tímum að á sama tíma og einstaklingar í örorkukerfinu eru að reyna að safna sér fyrir íbúð, leggja inn á bankabók, borga fjármagnstekjuskatt af því sem þar er inni, að þegar viðkomandi er kominn upp í 3 milljónir þá byrja þeir að skattleggja tapið. Þá byrja þeir að skerða arðinn sem bankinn er að borga um 11–65%. Fyrst skattleggja þeir tapið. Síðan bæta þeir skerðingunni ofan á tapið. Hvernig í ósköpunum eiga þessir einstaklingar að fara að því að safna sér fyrir íbúð? Það er gjörsamlega útilokað.

Hvers vegna er verið að refsa þessum einstaklingum bara vegna þess að þeir eru veikir? Aðrir lenda ekki í þessu, ekki fjármagnstekjueigandinn, ekki venjulegi launamaðurinn. Hvers vegna í ósköpunum telur ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, og þessi ríkisstjórn sérstaklega, þörf á því að refsa þeim verst settu svona grimmilega? Ég skil það ekki og ég veit ekki hvað það er í þeirra sál sem veldur því að þeim finnist þetta réttlátt og eðlilegt. En ég er sannfærður um að því miður verði ekki hægt að breyta þessu nema með að koma viðkomandi ríkisstjórn frá. Og síðan hafa þeir bætt um betur með því að 3,5% sem voru í tilgreindri séreign voru sett inn í lífeyrissjóðakerfið til að valda enn meiri skerðingum. Enn meiri böl fyrir þá sem eru að borga í kerfið í staðinn fyrir að leyfa þessum 3,5% að vera bara séreignarsparnaður sem viðkomandi getur ávaxtað hvar sem hann vill og er þar af leiðandi hans eign. Nei, þeir vilja fá þetta inn í kerfið. Þeir vilja auka á skerðingarnar. Þeir eru búnir að reikna það út að þá geta þeir sett peninga inn í þetta, þeir fara í gegnum gegnumstreymiskerfi almannatrygginga, renna þar úr ríkissjóði gegnum vasa almannatrygginga og aftur beint til ríkissjóðs. Eftir sitja þeir sem áttu og eiga að vera sannfærðir um að þeir hafi fengið einhverjar hækkanir með engar hækkanir heldur tap.