Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Maður er ekki alveg búinn að átta sig á því hvort hv. þingmaður er hér að tala fyrir lægri sköttum eða hvort hann vill hærri skatta. Það er ekki alveg auðséð vegna þess að hann telur að það að breyta krónutölugjöldum og sköttum ríkissjóðs, sem hefur að jafnaði verið gert í takt við verðlag þannig að þeir rýrni ekki og séu í raun ekki látnir daga uppi á verðbólgutímum og hvetji þannig til aukinnar þenslu í samfélaginu — það er ekki ljóst hvort hann telur að verðtrygging slíkra gjalda sé skattahækkun eða ekki. En það er kannski erfiðara að átta sig á því að nú vill hann ekki kannast við að Samfylkingin hafi slegið þann tón í tengslum við fjárlagafrumvarpið að rétt hefði verið að hækka hina ýmsu skatta, og reyndar veiðigjöld sem var aðeins komið inn á, vegna þess að hann talar skyndilega svo stíft gegn skattahækkunum, að það sé slæmt mál.

Það er auðvitað alrangt hjá hv. þingmanni að það hafi ekki verið ríkisstjórnin sem lækkaði skatta og reyndar er það þannig að það var Sjálfstæðisflokkurinn sem hafði einn skattalækkanir sérstaklega á dagskrá fyrir kosningarnar 2017. Við lögðum sérstaklega áherslu á að það væri hægt að lækka skatta. Það var sögð óábyrg stefna. En hv. þingmaður segir að það hafi í raun og veru engu máli skipt og að því marki sem það skipti einhverju máli hafi það verið vegna lífskjarasamninganna, ekki vegna ríkisstjórnarinnar, sem er mikill útúrsnúningur.

Hv. þingmaður segir að við séum á móti fjármagnstekjuskattinum. En þó hækkuðum við hann á síðasta kjörtímabili, ekki satt? Hann hefur hækkað úr 10% upp í 20% og núna stendur hann í 22%. Minn málflutningur er einfaldlega sá að það sé samkeppnishæf skattprósenta, eðlileg, sem skilar góðum tekjum í ríkissjóð og engin ástæða sé til þess að fara að hækka hana sérstaklega til viðbótar. Þetta er minn málflutningur. Það er ekki til að skjóta skjóli yfir þá sem greiða fjármagnstekjuskatt. Nei, þeir eiga auðvitað að greiða sinn sanngjarna skerf og gera það, eins og kemur í ljós á þessu ári þegar tekjurnar eru 16 milljarðar umfram áætlanir.