Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka forseta og starfsfólki þingsins fyrir liðlegheit þegar ég þurfti að skreppa aðeins frá, skutlast til læknis eins og gengur. En við höldum áfram að ræða fjárlögin. Ég ætla bara að segja það strax að það er ekki allt alvont í þessum fjárlögum, síður en svo. Það eru ákveðin teikn á lofti sem eru jákvæð. En síðan er hitt að það er erfitt að standa hér í 1. umr. og við vitum að það plagg sem við ræðum núna mun verða gjörbreytt eftir tvær, þrjár vikur. Stærstu liðirnir, eins og t.d. húsnæðisliðurinn sem er búið að blása upp, innviðaráðherra er búinn að boða tvisvar sinnum til blaðamannafunda og segja hversu stórkostlegir hlutir muni gerast þar, þar eru stórar fjárhæðir sem vantar hér inn. Það sama gildir um það sem ég tel að muni hafa mikil áhrif á þessa mynd og það eru kjarasamningarnir sem við stöndum frammi fyrir. Vonandi næst samkomulag sem fyrst á vinnumarkaði og ég vil hvetja aðila vinnumarkaðarins til að leysa þetta sín á milli því að það er ekki alltaf sjálfgefið að ríkið komi til að leysa og höggva á hnúta öðruvísi en að það sé alveg skýrt hver stefnan er. Mér finnst alltaf besta dæmið um hlutverk stjórnvalda í kjarasamningum vera þegar aðilar vinnumarkaðarins, á tímum þjóðarsáttar, voru mjög framsýnir, tóku erfiðar ákvarðanir sem þeir þurftu að selja sínu baklandi og síðan var farið til þáverandi ríkisstjórnar sem hafði það eitt hlutverk, eina markmið að halda stöðugleika í landinu. Það var ekki verið að koma með stórfelldar útgjaldakröfur á ríkið eða eitthvað annað heldur var einfaldlega sagt: Það er ykkar að sjá um það að hér verði stöðugleiki í gengismálum. Mér fannst það skynsamleg verkaskipting.

Ég hef hins vegar áhyggjur af því að við fáum ekkert að vita eða skilja um hvert svigrúm ríkisstjórnarinnar er til að mæta því sem mun tengjast kjarasamningum og ekki heldur hvernig hún ætlar að forgangsraða og nýta það svigrúm sem hún hefur í tengslum við þá. Ég hef ekki síður áhyggjur af því sem við verðum svo áþreifanlega vör við eiginlega á hverjum degi þegar ráðherrar í ríkisstjórn Íslands opna munninn, í hvert einasta sinn sem þeir gera það þá sjáum við þessi innanmein, þennan ágreining sem er á milli ráðherra í ríkisstjórninni. Ég hef bent á það hér að einn flokkur talar fyrir því að nýta sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk, nýta krafta einkarekstrarins til að ýta undir þjónustu í heilbrigðiskerfinu til að við getum nýtt krónurnar sem best, þar sem við höfum sterkt opinbert kerfi sem byggir á því að nýta bæði okkar sterku opinberu stofnanir, auðvitað með Landspítalann í broddi fylkingar, samhliða því að við eigum að nýta einkaaðila til að hjálpa okkur með því að losa um biðlista. Hversu mikill kostnaður er að hafa fólk á biðlista? Hann kemur bæði beint og óbeint fram, m.a. í fjárlagafrumvarpinu, en það má ekki minnast á það af því að forystuflokkur í ríkisstjórn sagði það síðast í fyrradag að það mætti ekki nefna það frekar.

Þetta er dæmi um það sem ég vil draga fram og ég hef áhyggjur af þegar kemur að kjarasamningum. Miðað við þetta þá munu Vinstri græn segja já við öllum útgjaldakröfum launþega og verkalýðshreyfingar sem og Samtaka atvinnulífsins. Síðan verður það þannig að Sjálfstæðisflokknum verður í mun að lækka skatta, lækka gjöld og koma til móts við þær kröfur. Þetta er bara ekki samræmanlegt. Það er ekki samræmanlegt að ætla sér að stórauka útgjöld ríkissjóðs og ætla sér að snarlækka skatta á sama tíma. Ég ætla að áskilja mér að hafa alla þá fyrirvara í tengslum við kjarasamninga sem ég þarf sem kjörinn fulltrúi hér á þessu þingi. Það gengur ekki heldur að fulltrúar sem eru ekki kjörnir inn á lýðræðislega samkomu komi hingað sjálfkrafa með kröfur sem eiga að vera samþykktar hér án þess að það sé í rauninni verið að fara yfir þær, þannig að það sé alveg skýrt, hvort sem það varðar atvinnurekendur eða launþegahreyfingarnar. Við þurfum að hafa almannahagsmuni í huga fyrst og síðast, ekki þá sérstöku hagsmuni sem geta varðað stöku atvinnurekandahreyfingu eða launþega. Okkar verkefni hér er að hafa almannahagsmuni í huga. Ég hef áhyggjur af því að ríkisstjórnin muni ekki standa í lappirnar þegar að þessu kemur eða hafa nægilega mikla yfirsýn. Við fáum ekki að sjá neitt hvað þetta varðar.

Við höfum heyrt ráðherra tala hér um viðsnúning á rekstri og ég tel vera ákveðin jákvæð teikn á lofti hvað það varðar en við skulum engu að síður hafa það hugfast að hallareksturinn er samt upp á tæpa 90 milljarða. Þessi síðustu ár, síðustu fimm ár, hefur taprekstur ríkissjóðs verið samtals 750 milljarðar ef við tökum inn árið 2023. Við skulum gæta allrar sanngirni. Inni í þessu er Covid, inni í þessu eru þeir fjármunir sem við þurftum að leggja fram til að slá skjaldborg um fyrirtækin og heimilin í landinu. En hallarekstur ríkissjóðs var til kominn löngu fyrir Covid. Hann var orðinn ósjálfbær fyrir Covid og fyrir stríðið í Úkraínu af því það var engin bremsa. Það var ekkert aðhald af því að það þurfti að láta ríkisstjórnina lifa. Það þurfti að láta m.a. Vinstri græn vera ánægð með að vera í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og þess vegna voru engin bönd lögð á útgjöld ríkissjóðs. Þess vegna ítreka ég það að ríkisstjórn án markmiða forgangsraðar ekki. Hún þenur út kerfið.

Enn og aftur er þetta gamalkunnugt stef. Það er verið að ýta skuldasöfnun og hallarekstri, eins og bent hefur verið á, yfir á næstu ríkisstjórn. Vaxtagjöldin eru orðin fjórði stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs, fjórði stærsti, og það munar um minna. Þess vegna er afar brýnt, með fyrirvara um allt sem kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar, að við höldum áfram að losa um eignarhlut ríkisins í bönkunum, m.a. Íslandsbanka, til að greiða niður skuldir, til að byggja upp innviði. Ég tel ríkisstjórnina vera að pissa í skóinn sinn með því að stöðva núna innviðauppbyggingu. Við vitum af reynslunni að það hafa verið mistök að reyna að stíga á bremsuna hvað það varðar. Við í Viðreisn bentum á það árin 2018 og 2019 að við þyrftum að fara af stað í framkvæmdir á fulla ferð. En þá var ekkert tilbúið. Þá kom ekki þessi snari snúningur sem við þurftum á að halda hjá ríkisstjórninni, þessari sömu ríkisstjórn sem er í dag. Hún er aldrei tilbúin af því hún hefur ekki markmið. Eina markmiðið er að halda sjálfri sér saman.

Núna þegar tækifæri eru til að endurhugsa, en það hafa verið dauðafæri til að endurhugsa, endurskipuleggja, forgangsraða, taka til og einfalda kerfi, einfaldara regluverk sem getur sparað mikla fjármuni, þá eru þau tækifæri ekki notuð. Tækifærin að mínu mati blasa við en það vantar þennan kjark, sem er settur til næstu ríkisstjórnar.

Ég undirstrika það að forsendur frumvarpsins eru ekki raunhæfar. Þær eru ekki skýrar því við eigum eftir að fá inn svo stórar breytur. Ég tók eftir því í morgun þegar við fjármálaráðherra áttum orðaskipti að hann hafði ekki miklar áhyggjur af viðskiptahallanum. Við erum upplifa mikinn viðskiptahalla sem er svo sérstakur að þá aukast neysluskattarnir og þá aukast tekjur ríkissjóðs. Sá tekjuauki er ekki sjálfbær. Það er ekki rétt að byggja á slíkum tekjuauka til framtíðar og þess vegna er mikilvægt að nota slíkan tekjuauka, eins og sagan sýnir að var rétt að gera á sínum tíma, til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Það er skynsamleg forgangsröðun.

Varðandi söluna á bönkunum þá nefndi m.a. hæstv. ráðherra að hann hefði ekki miklar áhyggjur af fákeppni á bankamarkaði. Ég talaði um að það væri ekki nægileg samkeppni. Hann talar um fákeppni. Já, það er fákeppni á bankamarkaði, það vantar raunverulega samkeppni fyrir heimilin, samkeppni fyrir litlu og meðalstóru fyrirtækin sem eru ekki í sömu aðstöðu og stóru fyrirtækin til að taka erlend lán til þess að byggja upp sína innri starfsemi. Það vantar þessi jöfnu tækifæri. Það er pólitísk ákvörðun að byggja hér upp fákeppni á markaði fjármálastjórnar og fjármálastefnu og líka fákeppni á sviði vátryggingastarfsemi. Það er pólitísk ákvörðun og sú ákvörðun felst í því að við erum enn þá að hanga eins og hundur á roði á handónýtum gjaldmiðli.