Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:24]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér um fjárlög fyrir árið 2023. Það er margt hægt að lesa í þeim og þau segja vissa sögu, bæði um það sem hefur gerst og það sem er að fara að gerast. Ég ætla að ræða meira um stóru myndina en svo er margt hér sem við eigum eftir að ræða í allan vetur í þinginu. Það er margt mjög jákvætt í fjárlögunum og það er ýmislegt sem við þurfum að ræða og gera betur og annað slíkt. Það skal sagt hér í upphafi að að sjálfsögðu er margt í fjárlögunum sem maður myndi vilja sjá öðruvísi, en í heild sinni held ég að þau séu að segja okkur að það hvernig við stóðum með heimilunum og fólkinu í landinu og fyrirtækjunum í gegnum heimsfaraldurinn sé að skila sér núna. Það hvaða leið var valin í að fara í framkvæmdaátak og verja störfin þannig að fólk gæti haldið áfram að starfa og annað slíkt er að skila sér í öflugu hagkerfi núna sem er með hagvexti og er að skila tekjum. Á sama tíma hafa verið blikur á lofti og verðbólgan er há. Við erum hér með fjárlög þar sem komið er inn á aðhald og það þarf að starfa með Seðlabankanum og því sem þeir eru að gera þar. Það er gert, það er sýnt aðhald og ábyrg ríkisfjármál eru stunduð sem hjálpar okkur að halda aftur af vaxtahækkunum og vonandi er farið að draga úr þeim. Það er það mikilvægasta sem gerist fyrir hvert heimili og hvert fyrirtæki að vaxtahækkanir Seðlabankans verði óþarfar. Þetta þarf að spila saman og það er gert í þessum fjárlögum án þess að það bitni á þeim sem minnst hafa á milli handanna eða millistéttinni. Það er gert án þess að skera niður í grunninnviðum. Það er gert þannig að við getum haldið áfram að styrkja grunnvelferðarþjónustuna. Það er hægt að ræða það, og ég sakna þess svolítið mikið í umræðunni eftir að fjárlagafrumvarpið kom fram, hvort hægt sé að setja meiri fjármuni í annað. En mér finnst bara flott að við þurfum ekki að vera að skera niður á meðan við erum samt í aðhaldsaðgerðum, mér finnst það mjög stórt atriði, eins og t.d. með heilbrigðiskerfið. En við þurfum líka að þora að taka þá umræðu, ræða þá hugmyndafræði, hvort hægt sé að nýta fjármunina betur. Er hægt að fara aðrar leiðir? Er eina leiðin til þess að ná meiri árangri að setja meiri pening inn í vissa geira? Það getur vel verið að það sé nauðsynlegt og ég held að það sé nauðsynlegt á mörgum stöðum en vitum við hvar þarf að setja peninginn? Hver er verðmiðinn? Hverju á hann að skila? Það þarf að liggja fyrir áður en fjármunirnir eru settir inn. Við skulum nýta þær vikur sem eru fram undan til að taka það samtal.

Það er ein aðgerð sem hefur verið mikið rædd hér en það er hækkun á vissum gjöldum. Aðallega er rætt um áfengisgjaldið þó að það séu fleiri og önnur gjöld. Varðandi þessi gjöld öll þá tel ég það hið eðlilegasta mál, eins og staðan er núna, að við séum að hækka þau í samræmi við verðlag. Þá erum við að sýna að við séum að spila með aðgerðum Seðlabankans. Þetta er mjög mikilvægt. Bara þessi aðgerð dregur úr líkum á að Seðlabankinn þurfi að hækka vexti frekar. Þetta er liður í því. En undanfarin ár höfum við tekið þessa sömu umræðu þrátt fyrir að þessi skattstofn hafi verið að dragast saman af því að þar höfum við aldrei farið upp fyrir 2,5% undanfarin ár. En þá var líka ekki jafn mikil verðbólga og ekki jafn miklar vaxtahækkanir og þá voru aðrar aðstæður uppi. En svo skulum við taka hvert eitt gjald, hvort áfengisgjaldið sé orðið of hátt, hvort gjaldið til Ríkisútvarpsins sé orðið of hátt, hvort gjaldið í Framkvæmdasjóð aldraðra sé of lágt. Ég hef aldrei skilið af hverju mun meira fer til Ríkisútvarpsins en í Framkvæmdasjóð aldraðra en þetta er rukkað á sama hátt og er á sama stað hérna. Við skulum taka sjálfstæða ákvörðun um það þó að gjaldahækkun sem slík sé eðlileg. Ég er til í það. Við getum talað um samkeppnishæfni ferðaþjónustu, það er einn vinkillinn sem við þurfum að ræða varðandi áfengisgjöldin. Við þurfum að ræða það hvernig þessu er skipt innbyrðis á milli tegunda og annað slíkt. Við skulum bara fara í þessa umræðu og sjá hvað er eðlilegt, hvort þessi gjöld séu komin fram úr öllu hófi og hvort það geti verið hagkvæmara fyrir heildarmyndina að endurskoða þau. Ég er alveg til í það.

Við þurfum að vera til í að forgangsraða og ræða svona hluti. Þetta er ekki alltaf augljóst. Það vilja allir setja mest í grunninnviði en það geta líka verið önnur atriði sem er mikilvægt að setja fjármuni í, sem skila sér svo betur annars staðar. Ég held að við þurfum að gera meira af slíkum kostnaðar- og ábatagreiningum. En ég held að forgangsröðunin eigi að vera að hafa grunninnviðina fremsta, grunnþjónustu og grunninnviði eins og rafmagn og vegi og hafnir og annað slíkt. Það eru svolítið skilaboðin frá fólkinu í byggðum landsins þegar maður fer um landið. Sjálfstæðisflokkurinn fer árlega hringferð um landið og maður fær eiginlega alltaf sömu skilaboðin. Þau eru: Hafið grunnþjónustuna, grunninnviðina, í lagi og látið okkur svo í friði. Hættið að setja boð og bönn og tafir og regluverk og flækjur og eftirlit á okkur. Leyfið okkur bara að hafa grunnþjónustu eins og aðrir og þá getum við séð um rest; að búa til störf, búa til útflutningsverðmæti og byggja upp öflugt samfélag.

Í þessu sambandi er mikilvægt að fjallað sé um sölu ríkiseigna. Eins og kom fram í kynningu á fjárlagafrumvarpinu og kemur fram í frumvarpinu sjálfu, í greinargerðinni, þá hafa þær eignir sem við höfum losað í Íslandsbanka borgað þær innviðaframkvæmdir sem við erum í. Við þurfum að hugsa um það hvar við getum haldið áfram. Við getum haldið áfram með Íslandsbanka. Við getum haldið áfram með hluta af Landsbankanum. Við getum haldið áfram með Póstinn, Isavia og á fleiri stöðum þar sem við getum losað um eignir til að byggja upp grunninnviði svo að við séum að bæta hag allra landsmanna út um allt land. Þetta skiptir miklu máli. Allar samgönguframkvæmdir og allt þetta skapar hagvöxt.

Og talandi um verðbólguna og framkvæmdir þá er eitt af því sem ég hefði viljað sjá frekari áherslu á hér í fjárlagafrumvarpinu, ég skal bara viðurkenna það, enn frekari áhersla á uppbyggingu samgönguinnviða af því að hægt er að dreifa þeim um landið, þeir eru ekki verðbólguhvetjandi, geta þess vegna dregið úr verðbólgu. Það eru miklu frekar framkvæmdir í byggingariðnaðinum hér á þröngu höfuðborgarsvæðinu, þar sem eru miklar og stórar mannaflsfrekar framkvæmdir sem kosta innflutning á hráefni, sem hækka verðbólguna, en ekki samgöngurnar. Þetta er eitt af þeim stóru atriðum sem við þurfum að skoða.

Svo er annað. Á þeim tímum sem við lifum núna, í breyttum heimi með auknum fjarskiptum og öðru, þurfum við líka að horfa á öryggis- og varnarmálin og sérstaklega löggæsluna líka. Sú hagræðing sem krafist er af lögreglunni gengur ekki. Farið hefur verið í mikla vinnu í dómsmálaráðuneytinu við að skoða hvernig hægt er að nýta mannafla, þekkingu og fjármuni sem best og endurskipuleggja skipuritið og verkefnastaðan hefur komið skýrt í ljós í ársskýrslum ríkislögreglustjóra og víðar, síðast hjá Seðlabankanum varðandi peningaþvættismál í síðustu viku. Þarna þurfum við verulega að spýta í lófana og það þurfum við að skoða í þessu frumvarpi.

Það er því af mörgu að taka. Heilt yfir er ég mjög ánægður með að frumvarpið sýni þessa sterku stöðu, hvernig aðgerðir síðustu ára varðandi ríkisfjármálin eru að skila okkur í öflugri ríkissjóði núna. Það er hægt að verja stöðu heimilanna, það er hægt að verja þá og hjálpa þeim sem lenda í mestu þrengingunum vegna verðbólgu, vaxtahækkana og erfiðs húsnæðismarkaðar. Það er hægt að mæta því í þessum fjárlögum og það er það sem skiptir máli, að við séum með öflugt hagkerfi sem getur hjálpað þeim sem þurfa hjálp.