Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:47]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans svar og það gleður mig að sjálfsögðu að við getum verið bandamenn í því að reyna að hnika þessu máli áfram. Mig langar að nefna það að ég hef í starfi mínu sem sveitarstjórnarmaður í gegnum tíðina átt fundi með ráðherrum og ráðamönnum þjóðarinnar um ýmis mál og m.a. í árlegri vísitasíu þeirra í kjördæmaviku inn á svæðið. Oft og einatt hafa ráðherrar eða þingmenn haldið því á lofti við okkur Suðurnesjamenn að við getum aldrei verið sammála um nokkurn skapaðan hlut. Það gerðist fyrir nokkrum árum á slíkum fundi í Garðinum að við settumst niður, sveitarstjórnarmenn, og sögðum: Við skulum bara sýna það í verki að við getum sameinast um tiltekin atriði og m.a. sameinuðumst við um að leggja áherslu á Reykjanesbrautina. Við lögðum líka til að við skyldum bíða með Reykjanesbrautina sem væri næst okkur, legðum frekar áherslu á Hafnarfjarðarhlutann, hann skipti meira máli á þeim tímapunkti, töldum við, og láta þann hluta sem liggur nær Reykjanesbæ bíða. Um þetta vorum við sammála ásamt því að leggja áherslu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. En hvað hefur gerst? Nákvæmlega ekki neitt. Málið fór til ráðherra og þingmanna og það hefur nákvæmlega ekkert gerst.