Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:49]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þingmanni að sveitarstjórnarfulltrúar á Suðurnesjum hafa komið þessu máli mjög skýrt á framfæri og staðið sig vel í því og sýnt mikla samstöðu. Það hefur skilað árangri. Ég held að það sé mjög mikilvægt að ræða þetta hér undir fjárlögunum af því að þarna er stór innviðaframkvæmd sem skilar miklu efnahagslegu innleggi í íslenskt efnahagslíf og því er þetta mjög mikilvæg framkvæmd. En þetta veldur mér miklu hugarangri því að fagnefnd Alþingis var búin að gera forgangsáætlun til framkvæmda þar sem þessari framkvæmd, út af mikilvægi hennar, var forgangsraðað og hún átti að fara af stað á næsta ári. Það hefur gerst frá því að við ræddum við sveitarstjórnarfulltrúa á Suðurnesjum, hún var sett í forgang í samgönguáætlun. Þetta var svo fjármagnað í fjárlögum. Ef Vegagerðin, með innviðaráðuneytinu, þarf að forgangsraða samgönguframkvæmdum þá vantar mig svör við því af hverju Reykjanesbrautin er ekki þar fremst í forgangsröðun út frá öryggissjónarmiði, notkunarsjónarmiði og sjónarmiði um þjóðhagslega hagkvæmni. Það eru svörin sem vantar. En það sem hefur gerst, sem er til bóta frá því að við þingmenn og sveitarstjórnarfulltrúar ræddum málin, er að málið er komið inn á áætlun, það var orðið fullfjármagnað og það var búið að klára skipulag. Það var allt orðið klárt til útboðs. Þannig var staðan ekki fyrir nokkrum árum en þannig er staðan í dag, sem betur fer. Nú þarf bara að fara að bjóða út og finna peningana sem búið var að lofa í þetta.