153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:07]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mun nú í stuttu máli gera grein fyrir helstu atriðum frumvarps til fjárlaga fyrir málefnasvið sem heyra undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Starfsemi málefnasviða 17, umhverfismál, og 15, orkumál, vega þar þyngst en að auki fellur starfsemi Landmælinga Íslands á málefnasviði 6 og starfsemi Minjastofnunar á málefnasviði 18 undir ráðuneytið.

Í fjárlagafrumvarpi 2023 sem nú er til umræðu eru heildarútgjöld málefnasviðs 17, umhverfismál, áætluð 27.869 millj. kr. og aukast um 2.185 millj. kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2022 auk almennra launa- og verðlagsbreytinga og nemur þá útgjaldaukning alls 2.898 millj. kr.

Heildarfjárheimild til náttúruverndar, skógræktar og landgræðslu nemur 6.234 millj. kr. og eykst um 228 millj. kr. á föstu verðlagi ársins 2022 auk almennra launa- og verðlagsbreytinga og nemur þá útgjaldaaukning alls 398 millj. kr. Helsta breyting fjárheimilda er fólgin í 200 millj. kr. aukningu til að bæta ástand áfangastaða innan náttúruverndarsvæða og þjónustu á þeim, en um er að ræða varanlega aukningu úr fyrri fjármálaáætlun.

Áfram verður lögð áhersla á uppbyggingu innviða náttúruverndarsvæða landsins, bætta þjónustu og eflingu landvörslu. Í ljósi umræðu um stækkun þjóðgarða og fjölgunar annarra friðlýstra svæða fer fram vinna þar sem staðan er greind og aukin samlegð í verkefnum stofnana sem fara með umsjón svæðanna er skoðuð. Einnig verður lögð áhersla á að hlúa vel að málefnum menningarminja. Áhersla er einnig á að vinna að stöðugreiningu og stefnu um líffræðilega fjölbreytni á Íslandi auk annarra verkefna. Nýlega kom út heildstæð áætlun um landgræðslu og skógrækt til tíu ára, auk aðgerðaáætlunar til fimm ára. Meðal skilgreindra aðgerða eru rannsóknir á áhrifum landgræðslu, skógræktar og endurheimtar votlendis á lífríki, gerð nýrra gæðaviðmiða við val á landi til skógræktar og mat á kolefnisjöfnuði fyrir losunarbókhald í loftslagsmálum.

Heildarfjárheimild til meðhöndlunar á úrgangi nemur 6.989 millj. kr. og eykst um 605 millj. kr. á föstu verðlagi ársins 2022 auk almennra launa- og verðlagsbreytinga og nemur þá útgjaldaaukning alls 609 millj. kr. Breytingar fjárheimilda í málaflokknum koma til vegna áætlaðrar magnaukningar á skilagjald einnota drykkjarvöruumbúða og áætlaðrar aukningar á innheimtu úrvinnslugjalda. Hvað málaflokkinn varðar standa fyrir dyrum miklar breytingar í umhverfi úrgangsmála sem koma til framkvæmda í upphafi árs 2023 og felast í auknum verkefnum Úrvinnslusjóðs og aukinni fjármögnun á meðhöndlun úrgangs, sem að hluta færist frá sveitarfélögum yfir til sjóðsins.

Heildarfjárheimild til stjórnsýslu umhverfismála er áætluð 7.614 millj. kr. og eykst um 1.432 millj. kr. á föstu verðlagi ársins 2022 auk almennra launa- og verðlagsbreytinga 381 millj. kr. og nemur þá útgjaldaaukning alls 1.813 millj. kr. Helstu breytingar á málaflokknum er fólgnar í 800 millj. kr. hækkun fjárheimilda vegna kaupa á losunarheimildum í tengslum við skuldbindingar samkvæmt Kýótó-bókun og 740 millj. kr. hækkun til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda, bindingar, aðlögunar og annarra loftslagsaðgerða.

Afar mikilvæg stefnumótunarvinna er hafin vegna markmiðs um kolefnishlutleysi. Þessi vinna verður áfram efld og snýr að því hvernig atvinnulífið, sveitarfélög, stjórnvöld og almenningur geta lagst saman á árarnar til þess að ná metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum Íslands.

Heildargjöld málefnasviðs 15, orkumál, árið 2023 eru áætluð 6.213 millj. kr. og lækka um 214 millj. kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2022. Þegar tekið er tillit til áhrifa 232 millj. kr. hækkunar vegna almennra launa- og verðlagsbreytinga hækka útgjöldin um 18 millj. kr. milli ára. Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins felast í niðurfellingu á tímabundinni 100 millj. kr. fjárheimild til orkuskipta er komu af málefnasviði 17 og munu þær færast í önnur loftslagstengd verkefni. Þrátt fyrir þessa lækkun er gert ráð fyrir að framlög til að styðja við orkuskipti verði aukin verulega og fjármögnuð sem fyrr af málefnasviði 17, umhverfismál.

Frá því ég tók við embætti ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála hef ég lagt mig fram um að setja af stað fjölmörg verkefni undir áherslum orkustefnu og þá sérstaklega orkuöryggi og orkuskiptum. Kyrrstaðan í virkjunarmálum hefur verið rofin með afgreiðslu Alþingis á rammaáætlun og liðkað hefur verið fyrir aflaukningu virkjana með því að undanskilja þær frá ferli rammaáætlunar. Nú er unnið að því að efla orkuöryggi á öllum sviðum, hvort sem það tengist raforku, eldsneyti eða varma. Þá er nauðsynlegt að tryggja framboð jarðvarma til hitaveitna, nú og til framtíðar litið og unnið er að mikilvægum verkefnum þar að lútandi. Stefnumótun og regluverk fyrir vindorku, hvort sem hún er á landi eða á hafi, er í vinnslu og mótun. Það er sem betur fer mikil gróska og gerjun á þessu sviði sem mér fellur vel að styðja við, enda leggja verkefnin hvert og eitt okkur lið í að mæta markmiðum og skuldbindingum í loftslags- og orkumálum.

Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Við þurfum að hafa okkur öll við til að ná þeim markmiðum. (Forseti hringir.) Þetta er ekki barátta eins ráðuneytis eða eins ráðherra, í þessari baráttu þurfa allir að leggjast á eitt; atvinnulíf, sveitarfélög og stjórnvöld. (Forseti hringir.) Ég treysti á stuðning Alþingis í þeim verkefnum sem fram undan eru.