Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:09]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Mér fannst áhugavert að hv. þingmanni fannst allt mjög ruglingslegt sem ég hafði sagt hérna og kom svo fram með spurningu sem er án nokkurs vafa ruglingslegasta spurningin sem hingað hefur komið, alla vega síðan ég byrjaði að ræða fjárlögin hérna í dag. Hv. þingmaður hefur augljóslega ekki tekið eftir því að við vorum að ræða um aðlögun. Það liggur alveg fyrir að við verðum að fara í aðlögun og þurfum að fara í aðlögun. En aðlögun, nema hv. þingmaður sé ósammála því — mér finnst best að fara í þær aðgerðir sem snúa að aðlögun, eins og aðrar aðgerðir, með bestu mögulegu upplýsingum. Hv. þingmaður er kannski ósammála mér. Út af því að hv. þingmaður talaði hér um eitthvert alþjóðlegt kerfi, og hvað það var nú sem hv. þingmaður sagði — þetta er ekkert rosalega flókið, virðulegur forseti: Við erum að taka út bensín og dísil og setja græna orku í staðinn. Ef hv. þingmaður er ósammála því og telur að það sé bara kostnaður þá vil ég hvetja hv. þingmann til að skoða hvað við gerðum hér áður. Ég vil líka hvetja hv. þingmann til að skoða það hvaða verð menn fá fyrir vörur og þjónustu þegar menn ganga þann veg. Ál er hrávara, almennt er sama verðið á áli, sama hvar það er. Á því er heiðarleg undantekning: Íslenskt ál. Af hverju? Vegna þess, virðulegi forseti, að menn tóku bensín og dísil og gas á Íslandi áður og fór í græna íslenska endurnýjanlega orku. Þess vegna verða gerðir langtímasamningar um íslenskt ál vegna þess að það þykir grænna en annað. Og í rauninni er það þannig að það þjóðfélag sem við búum og lifum í byggir á því að þeir sem á undan gengu fóru nákvæmlega þann veg að nýta endurnýjanlega íslenska græna orku og það er ekkert lítið sem við höfum hagnast á því og munum hagnast af því um ókomna tíð.