Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:14]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Það er ótrúlegt að hv. þingmaður — ég þakka honum fyrir fyrirspurnina — sé núna að upplýsa það að hann sé loks að skilja orkuskiptin. Þetta var svo flókið. (SDG: Þú sagðir það.) — Að orkuskiptin væru flókin? Aldrei nokkurn tímann. (SDG: Lofslags …) Hv. þingmaður er galandi eitthvað út hérna. Hv. þingmaður er að upplýsa fyrir þingi og þjóð að hann skilji loksins orkuskiptin. (SDG: Þú varst að segja …) (Forseti hringir.) Að hann skilji loksins orkuskiptin. Þetta er með slíkum ólíkindum og það verður bara áhugavert að hlusta á hv. þingmann á næstunni þegar hann er eftir allan þennan tíma farinn að skilja orkuskiptin. Skilur hv. þingmaður af hverju farið var í hitaveitu og rafveitu með vatnsaflsvirkjunum? (SDG: Er ekki verið að eyða tímanum?) Er hv. þingmaður með það á hreinu eða er líka það of flókið? Þarf að útskýra það? (SDG: Þú átt engin svör.) (Forseti hringir.)

(Forseti (JSkúl): Ég bið hv. þingmenn …) (SDG: Það má kalla fram í við þessar aðstæður, frú forseti.)

(Forseti (JSkúl): Ég bið þingmenn að halda sig við ræðustólinn með ræður sínar og ekki vera í frammíköllum í sal.)

Hv. þingmaður er líka kominn hér í fundarsköp þingsins og þau eru auðvitað mjög auðskiljanleg.

En varðandi þetta bann við leit og rannsóknum á á Drekasvæðinu þá eru það auðvitað bara skilaboð um hvert við erum að fara. Þetta fer auðvitað ekkert. Ef einhvern tímann kemur einhver ríkisstjórn sem vill fara aðra leið þá hefur ekkert breyst. Það hefur að vísu enginn nýtt þetta fram til þessa af einhverjum ástæðum. En við erum hér með mjög metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og það er vandséð hvernig það myndi auðvelda okkur það verk ef við færum þessa leið, sem mér vitanlega enginn er að biðja um að fara, en það má vel vera að svo sé. Ég veit ekki, kannski þykir hv. þingmanni þetta flókið en ég er bara gríðarlega ánægður með að hv. þingmaður sé farinn að skilja orkuskiptin. Það er bara stór stund í þingsögunni.