Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:26]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið og mun ekki liggja á liði mínu í þessu verkefni og vil efla hana til dáða við að fá þetta húsnæði. Og af því að hún talaði um þennan samstarfssjóð og mikilvægi samvinnu milli háskóla, sem ég heyri að stjórnendur háskólanna taka vel í, þá vil ég líka segja að mér þykir þetta mjög jákvæð hugmynd, bæði þessi sameiginlega innritunargátt og þessi samstarfssjóður til að auka samstarfið. Ég fagna þessu mjög. En þar sem ég hef verið með hugann við Listaháskólann þá get ég ekki annað en hugleitt hvernig það verður fyrir nemendur í Listaháskólanum að sitja kúrs, segjum í listasögu eða leiklistarkennslu eða einhverju öðru, við hlið nemenda úr Háskóla Íslands og listaháskólaneminn borgar 320.000 kr. fyrir önnina, fyrir að fá að stunda nám, eða 640.000 kr. á ári, en háskólaneminn við Háskóla Íslands og neminn við Landbúnaðarháskólann, sem kannski vill líka fara og læra listasögu, segjum það, borgar 75.000 kr. á ári. Hvernig má þetta vera í þessum opinbera háskóla? Hvernig getum við réttlætt svona ofboðslegt óréttlæti? Þetta fælir nemendur frá efnaminni heimilum frá því að fara í listnám og munum að þetta er ein af helstu útflutningstekjum okkar, tækifæri okkar eru í listum og menningu. Við mismunum nemendum ofboðslega, þau eru með tíu sinnum hærri skólagjöld á hverju námsári en nemendur við aðra opinbera háskóla. Þetta skiptir ekki öllu máli varðandi tekjur háskólans, hef ég heyrt frá stjórnendum, en þetta skiptir öllu fyrir nemendurna. Þetta kemur í veg fyrir, eins og ég segi, að nemendur frá efnaminni heimilum velji sér listgreinar sem námsfag í háskóla.