Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:45]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að sjá að þegar kemur að nýsköpun er ekki skorið jafn mikið niður og upphaflega átti að gera samkvæmt fjármálaáætlun. Sérstaklega er gott að sjá að við erum að halda í við endurgreiðslurnar á þróunar- og rannsóknarkostnaði, nokkuð sem við börðumst dálítið fyrir hér á vormánuðum. Ég harma hins að það er verið að draga til baka tímabundna hækkun á framlagi í Tækniþróunarsjóð en í dag er það þannig að jafnvel með þeirri upphæð sem var fyrir þetta ár, sem var hækkuð, hljóta mörg verkefni ekki stuðning. Fjármagnið er ekki nægilegt. Vonandi getum við farið að vinna upp á við í að fjármagna Tækniþróunarsjóð.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvaða áætlanir séu um að efla erlend tengsl og markaðssetningu en í fjárlögum þessa árs er einmitt skorið niður það fjármagn sem átti að nota til alþjóðlegra verkefna og markaðssetningar. Við vitum það nefnilega að lykillinn að góðri nýsköpun er öflugt, alþjóðlegt tengslanet og aðgangur að fjármagni. Í dag er aðeins eitt stöðugildi hjá Íslandsstofu þar sem þessu er sinnt, það er alls ekki nóg. Við þurfum bæði að efla samstarf hér á Norðurlöndum og t.d. líka yfir til Kísildalsins. Jafnframt langar mig að spyrja ráðherra hvaða plön séu um nýliðun í hópi fjárfesta og í því að auka breidd vísisjóða sem hér starfa. Núverandi kröfur fyrir því að þessir aðilar geti fengið fjármagn úr sjóðum Kríu eru mjög heftandi og í rauninni þannig að einungis þeir sem voru með sjóði hér áður uppfylla þau skilyrði sem þar eru gefin upp.