Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[09:53]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessi fínu svör. Ég fæ kannski að ítreka vangaveltur mínar um árangur af þessum aðgerðum, þessum breytingum á Stjórnarráðinu, og hvernig sá árangur verði mældur. Ráðherra náði ekki að koma inn á breytingar á lögum um starfsmenn ríkisins, en það er klárlega orðin þörf á því að nútímavæða þau svo að auðveldara sé t.d. að aðlaga starfsemi ríkisins að stefnu stjórnvalda hverju sinni. Það gæti líka verið jákvætt í efnahagsástandi þar sem krafa er uppi um aðhald og þegar sérstök verkefni eða aðstæður eru uppi sem geta haft áhrif á starfsmannahald á hverjum tíma. Við höfum náð fínum árangri í því að sameina ríkisstofnanir. Til að mynda voru 250 ríkisstofnanir árið 1998 en í fyrra voru þær 156. Mig langaði að spyrja hvort verið væri að leggja áherslu á sameiningu ríkisstofnana til hagræðingar, sérstaklega í ljósi skýrslu Ríkisendurskoðunar sem kom í fyrravetur og hvort forsætisráðherra sé að leggja vinnu í það að greina hvar megi sameina í ljósi samhæfingarhlutverks síns.