Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:01]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Hún minntist á áfengisstefnuna og ég vona að hæstv. forsætisráðherra muni beita sér fyrir því að einkaleyfi ríkisins á sölu áfengis verði virt. Það er 100 ára á þessu ári, hefur verið síðan 1922. Ég mun standa gegn því að grafið verði undan því leyfi eins og fréttir í sumar, í byrjun júlímánaðar, voru um; falsfréttir um að einkaleyfi ríkisins væri óljóst af því að fólk gæti farið að kaupa í gegnum netið. Póstverslun með áfengi er gamalt fyrirbrigði, bændur keyptu áfengi gegnum síma áður fyrr og það er enginn munur á því í eðli sínu að kaupa í gegnum netið og að kaupa í gegnum síma.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra að eftirfarandi spurningu: Það virðist vera eilífðarverkefni að koma á fót mannréttindastofnun. Það er verkefni sem á rætur að rekja til Parísarviðmiðana sem voru samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1993. Árið 2016 voru kynnt drög að frumvarpi um sjálfstæða mannréttindastofnun í samráðsgátt stjórnvalda. Þá voru kynnt drög að frumvarpi um sama efni sumarið 2019. Nú er stefnt að því að stýrihópur um mannréttindi, sem forsætisráðuneytið leiðir, skili af sér frumvarpi um sama verkefni fyrir lok árs 2023. Hvers vegna tekur þetta svona langan tíma? Mun forsætisráðherra beita sér fyrir því að hin nýja mannréttindastofnun verði á landsbyggðinni? Ég tel að það væri rétt og bragur á því fyrir stjórnvöld. Hér er rétt að minna á að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna taldi — í áliti sínu árið 2004, í máli Erlings Sveins Haraldssonar og Arnar Snævars Sveinssonar — að íslenska ríkið hefði gerst brotlegt gegn mannréttindum sjómanna með fiskveiðistjórnarkerfinu, kvótakerfinu. Einnig er vert að hafa í huga að jöfn búsetuskilyrði í landinu eru eitt stærsta mannréttindamál Íslands. Mannréttindastofnun væri viðurkenning á mikilvægi jafnra búsetuskilyrða, á því mikilvæga jafnréttismáli.