Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:12]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Á tíu sekúndum vil ég segja vegna starfshóps um hatursorðræðu — mig langaði að svara hv. þingmanni sem hér var á undan — að við getum átt von á því að við þurfum að ráðast í frekari aðgerðir á því sviði.

Hvað varðar stöðuna í verðbólgunni sem hv. þingmaður nefnir svo, fyrirsjáanleg að einhverju leyti þegar fjármunum hins opinbera er dælt út í hagkerfið, en samt ekki fyrirsjáanlegri en svo að stærsta áhyggjuefni okkar allra hér fyrir ári var að atvinnuleysið yrði áfram í hæstu hæðum. Við getum því deilt um hversu fyrirsjáanlegt þetta var. Við getum líka sagt, og það tengist því sem hv. þingmaður nefnir um húsnæðismálin, að húsnæði hefur hér í okkar samfélagi verið einn af lykilþáttunum í verðbólgunni. Hún er ekki öll bara vegna alþjóðlegrar þróunar. En þar getum við ekki bara talað um eftirspurnarhliðina því að m.a. vegna aðgerða stjórnvalda er það svo að sjaldan hefur verið byggt meira en á síðustu tveimur árum og þriðjungur þeirra nýju íbúða sem var byggður er kominn til vegna félagslegra áherslna stjórnvalda í gegnum almenna íbúðakerfið og hlutdeildarlána. Mætir það þörfinni? Nei. Þess vegna erum við að skrifa undir rammasamkomulag við sveitarfélögin því að ef við náum auknum stöðugleika á húsnæðismarkaði þá erum við ekki bara að tryggja aukna velferð fólks heldur líka draga úr sveiflum í efnahagslífinu.

Loftslagsmálin. Auðvitað voru framlög til þeirra aukin mjög á undanförnum árum en ekki endilega talið með það sem við erum að gera þegar kemur að samgöngum. Ég vil minna á borgarlínuverkefnið sem snýst auðvitað um að byggja upp almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu þar sem ríkið er að koma inn með gríðarlega myndarlegum hætti, það er algerlega óumdeilt, í stofnkostnað á kerfi sem getur orðið til þess að breyta ferðavenjum, draga úr útblæstri, samhliða því að við erum að færa okkur yfir í nýja orkugjafa. Eðlilega spyr hv. þingmaður líka um þetta vegna breytinga sem eru að verða á gjaldtöku vegna umferðar ökutækja. En ég held líka að það sé óumdeilt að það verði vandasamt verkefni að ná fram árangri (Forseti hringir.) í loftslagsmálunum samhliða því að tryggja gjaldtöku af samgöngum. Ég held að það megi ekki vanmeta það, því ég hef heyrt að það er lítið rætt um þetta að þessu sinni í fjárlagaumræðunni, að almenningssamgöngurnar eru eitt af stóru málunum þar. (Forseti hringir.) Þar er ríkið svo sannarlega að leggja sitt af mörkum inn í stofnkostnað.