Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:15]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir sína yfirferð um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023. Frumvarpið litast auðvitað af þeim miklu umbrotatímum sem við höfum farið í gegnum á síðustu árum. En áður en ég beini spurningum til forsætisráðherra langaði mig almennt að koma inn á fjárlagafrumvarpið. Það er nauðsynlegt og skynsamlegt að vinna með þá stöðu sem hagkerfið er í hverju sinni. Eðlilegt er, eftir þann tíma sem við höfum farið í gegnum, að ná niður skuldum. Það er því sérstaklega ánægjulegt að sjá að skuldir eru minni en áður var gert ráð fyrir. Við vitum það öll sem rekum heimili að þegar borga þarf niður skuldir er eðlilegt að sýna aðhald í bókhaldi og reyna með einhverjum hætti að auka tekjur. En það er einmitt það sem boðað er í þessu fjárlagafrumvarpi. Hér er um að ræða skynsamleg fjármál og þegar við berum okkur saman við lönd í kringum okkur getum við þakkað fyrir það hversu góð staðan er hér á landi í raun. Á sama tíma og ríkisfjármálum er beitt gegn þenslu og verðbólgu hlýtur markmið okkar ávallt að vera að bæta lífskjör allra landsmanna og ég hef fulla trú á því að það takist á endanum.

Sem liður í að auka tekjur ríkissjóðs segir í fjárlagafrumvarpinu að stefnt sé að áframhaldandi sölu á hlutum í ríkisbönkum. Ríkið á enn þá langstærstan hluta í Landsbankanum og 42,5% hlut í Íslandsbanka. Af þessu tilefni langar mig að biðja hæstv. forsætisráðherra að segja frá því hver hennar afstaða er til sölu á eftirstandandi hlutum í Íslandsbanka sem og varðandi sölu á hlut í Landsbankanum.