Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:21]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Þetta er kannski spurning sem verðskuldar meira en tvær mínútur. Ég vil þó segja það að auðvitað hefur mjög margt breyst til batnaðar á þeim 12 til 14 árum sem liðin eru frá hruni. Það eru alveg ótrúlega miklar endurbætur sem hafa orðið á lögum og regluverki fjármálakerfisins, ekki bara á Íslandi heldur í Evrópu og við höfum innleitt þær breytingar. Það hafa verið gerðar mjög jákvæðar breytingar, t.d. hvað varðar áhættusækni í fjármálakerfinu. Við erum með háar eiginfjárkröfur hér á landi sem ég tel að séu mjög skynsamlegar líka. En vegna þess að hv. þingmaður nefnir almenning í landinu þá sjáum við það ekki, ekki enn alla vega, að greiðsluerfiðleikar séu að aukast hjá almenningi. Við fylgjumst mjög grannt með því vegna þess að það skiptir máli að átta sig á því. Mögulega er það vegna þess að þó að lán séu að hækka, bæði vegna verðbólgu og breytilegra vaxta, þá er líka orðin auðveldari leið til að endurfjármagna lán. En það breytir því ekki að við þurfum að fylgjast mjög grannt með þessu.

Hv. þingmaður nefndi samfélagsbanka og það er eitt af því sem við höfum svolítið rifist um hér á þingi, hvað það merkir að banki sé samfélagsbanki, og það hafa verið skiptar skoðanir á því. En ég held í öllu falli að við séum að sjá ný viðskiptalíkön koma inn í fjármálastarfsemi einfaldlega vegna tæknibreytinga. Við erum að sjá það gerast. Það er annað sem ég held að við þurfum að vera á vaktinni með: Hvernig tryggjum við sem best hag neytenda gagnvart nýjum aðferðum í bankarekstri, sem er að taka stórstígum breytingum, og að við séum að fylgjast betur með? Þá kem ég aftur að því sem tengist sameiningu Seðlabanka og Fjármálaeftirlits, ég tel að sú sameinaða stofnun hafi mjög aukinn slagkraft í að fylgjast með þessari þróun og vakta hana þannig að við séum líka alltaf með hag neytenda að leiðarljósi.