Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:30]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Kannski örstutt um verðbólguna, sem er mikil. Ég vil minna á að ég hef aðeins rætt sameiningu Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins, og í tengslum við þá sameiningu var líka með lögum lögð aukin áhersla á hlutverk þessarar stofnunar til að gæta að fjármálastöðugleika. Ég finn það eftir að hafa setið hér alllengi hversu miklu það skiptir að hafa sett það hlutverk inn í lögbundið hlutverk Seðlabankans. Því er stýrivaxtatækið ekki eina tækið sem bankinn hefur verið að beita. Við höfum líka séð ráðstafanir sem hafa haft áhrif á húsnæðismarkaðinn til aukins stöðugleika, og þess vegna segi ég að þegar við tölum um sveiflur í efnahagslífinu, og ég veit að við hv. þingmaður erum ekki sammála um hvaða gjaldmiðill eigi að vera hér, þá er gjaldmiðillinn tæki sem endurspeglar hagstjórnina sjálfa og bara þessi breytta tilhögun mála hjá Seðlabankanum og breyttar heimildir hefur gert það að verkum að við höfum sterkari hagstjórnartæki til að draga úr sveiflum. Ég nefni þetta hér vegna þess að þetta er auðvitað risastórt mál.

Hvað varðar krónutölugjöldin þá eru áhrifin 0,2%, eins og ég segi. Við erum að tryggja að tekjustofnarnir rýrni ekki, sem þeir hafa gert undanfarin ár, og ég tek undir með hv. þingmanni að þetta er vandmeðfarið. Krafa er um það að ríkið vinni gegn þenslunni, það gerum við að hluta til með tekjuöflun, aðhaldi og frestun framkvæmda. En á sama tíma viljum við ekki auka á vandann og því er þetta vandratað einstigi.

Hvað varðar bankana þá nefndi ég hér áðan að það er ekkert fjarri því sem hefur verið á Norðurlöndum þar sem ríkissjóður á til að mynda mjög stóra hluti í stórum bönkum, jafnvel upp á 30–40%. Við höfum haft þá skoðun í minni hreyfingu að það sé eðlilegt að ríkið sé eigandi að hluta á fjármálamarkaði. Þar höfum við horft til Landsbankans (Forseti hringir.). Eins og ég nefndi er ekki lagst gegn sölu á Íslandsbanka þótt eðlilegt sé (Forseti hringir.) að hún sé tekin til þessarar skoðunar og engar ákvarðanir teknar fyrr en þeirri skoðun er lokið. Ég hygg nú að allur þingheimur sé sammála um það, óháð grundvallarafstöðu.