Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:37]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svarið. Það er ekki alveg augljóst að ríkið hafi í gegnum þennan eignarhlut sérstöku stöðugleikahlutverki að gegna, þ.e. þegar horft er til armslengdarsjónarmiðanna, en látum það nú vera. Ég ætla aðeins að halda mig við Landsbankann. Það bárust fréttir af því fyrir nokkru síðan — væntanlega fjármálaráðherra fyrir hennar hönd en ég gef mér að forsætisráðherra hafi sem verkstjóri hópsins verið vel upplýst um það mál — að ríkissjóður ætlaði sér að kaupa af þessari 100% eign sinni í Landsbankanum hf. rými undir tvö ráðuneyti í nýja Landsbankahúsinu sem verið er að byggja á dýrustu lóð landsins. Síðar bárust fréttir af því að þær samningaviðræður hefðu runnið út í sandinn. Auðvitað þarf að passa vel upp á húsnæðismál ráðuneytanna, eins og ráðherrann kom inn á þá hafa sum þeirra lent í myglu eins og hæstv. ráðherra orðaði það. Þetta þarf auðvitað að vera í góðu lagi, annars hætta þingmenn að nenna að sinna þeim störfum sem þarna um ræðir. En mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig mál standa varðandi húsnæðisaðstöðu þessara tveggja ráðuneyta sem sagt var í fréttum að kæmu sér fyrir í nýja Landsbankahúsinu, þ.e. utanríkisráðuneytisins og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Eru einhverjar aðrar lausnir sem verið er að skoða eða ætlar ríkisstjórnin eða einhver fyrir hönd hennar að setjast aftur niður til samningaviðræðna við Landsbankann sem ríkissjóður á jú hér um bil að öllu leyti? Það væri áhugavert að heyra hvernig þessi mál standa.