Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:34]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Já, til að svara þessari spurningu um hvort fólk í neyð eigi ekki að geta farið að vinna: Jú, að sjálfsögðu. Að sjálfsögðu eigum við að greiða því leið. Fólk sem kemur hingað og hlýtur hér vernd fær náttúrlega dvalarleyfi og atvinnuleyfi og það á að sjálfsögðu að nýta það. Þegar ég er að tala um að það sé ákveðin misnotkun, og þetta er ekki bara umræðan hér á landi, er þegar fólk kemur hingað og víðar og sækir um vernd í því kerfi sem um vernd á að gilda. Ég hef ekki tölurnar í þessu en það er hægt að taka þetta saman, t.d. hversu mörgum er verið að hafna. Þá er fólkið alla vega í dvöl í einhvern tíma og með okkar aðstoð en er á einhverjum öðrum forsendum. Það er að koma frá löndum sem teljast ekki óörugg. Það er jafnvel með vernd í öðrum löndum þar sem það getur síðan á endanum fengið réttindi til þess að ferðast innan Schengen-svæðisins og komið hingað til að vinna og starfa eins og aðrir. Það er þessi misnotkun sem um er að ræða þegar fólk er að koma við þessar aðstæður. Málsmeðferðartíminn hér er svolítið öðruvísi og reglur um viðtökurnar eru svolítið öðruvísi hjá okkur en öðrum þjóðum og það er t.d. skýringin á því af hverju hingað koma hlutfallslega svo margir frá Venesúela. Á meðan þeir eru innan við 1% þeirra sem leita t.d. til Norðurlandanna þá eru þeir um 20% af þeim sem koma hingað af því að reglurnar eru miklu rýmri. Það eru bara allt aðrar reglur sem er unnið eftir. Ég held að við séum í sjálfu sér algerlega sammála um þetta með fólkið í neyð og held að við séum sammála um að greiða fólki leið hingað (Forseti hringir.) sem vill koma hingað frá þriðju ríkjum. (Forseti hringir.) Ég vil sjá það fólk koma hingað og sækja um atvinnuleyfi og dvalarleyfi og það vill fara að vinna og er með samning við fyrirtæki. (Forseti hringir.) Það fólk viljum við fá hingað og ég vil rýmka þær reglur.