Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:38]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Héraðsdómstólarnir eru átta, sýslumannsembættin eru níu og í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í desember er bent á 40 örstofnanir þar sem verði að bregðast við og breyta starfsfyrirkomulagi hjá. Í þeim breytingum sem ég hyggst leggja fram þingmál um núna í haust, bæði varðandi dómstólana og sýslumenn, eru 13 örstofnanir undir á einu bretti. Það gefur svolítið augaleið hvert við erum að fara. En grundvallaratriðið er þetta: Við settum okkur þrjú markmið þegar ég kom í ráðuneytið. Í fyrsta lagi að við ætlum að stuðla að bættri þjónustu við borgara landsins. Í öðru lagi ætlum við að sýna fram á það að við séum að fullnýta með virkum hætti það fjármagn sem okkur er falið til ráðstöfunar í okkar málaflokka. Í þriðja lagi ætlum við að fjölga störfum úti á landi. Þetta eru forsendurnar fyrir breytingunum. Við ætlum að efna fyrirheit stjórnvalda sem hafa komið fram í byggðaáætlunum í mörg ár sem maður hefur tekið þátt í að afgreiða hér. Þetta hefur verið í stefnuskrám stjórnmálaflokka fyrir kosningar og þetta hefur verið í ríkisstjórnarsáttmálum. Við ætlum að efna þessi fyrirheit. Við ætlum að styrkja starfsemi þessara stjórnsýslustöðva úti á landi. Stafræn bylting, rafræn þjónusta er er að verða æ snarari þáttur í starfsemi þessara stofnana. Dómsmálaráðuneytið hefur verið mjög framarlega í þeirri innleiðingu. Af því mun leiðast mikill sparnaður en sérstaklega aukin skilvirkni og bætt þjónusta. Þetta eru markmið okkar. Við erum ekki búnir að reikna okkur kannski niður á endanlegar tölur um það hver sparnaðurinn verður en hann er augljós inn í framtíðina. Það sem er aðalatriðið er að þjónusta við borgarana mun batna og við munum geta styrkt starfsemina, á grundvelli stafrænnar byltingar og rafrænnar þjónustu, og fært verkefni úti um land og staðið við fyrirheit stjórnvalda um það að færa meira af verðmætum, opinberum störfum út á land. Það eru mikil tækifæri í þessu samhliða því sem við erum þá að styrkja þjónustu við borgarana hvar sem þeir búa.