Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:50]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti eru fjögur málefnasvið í fjárlagafrumvarpi og undir þau falla m.a. málefni vinnumarkaðar, almannatrygginga örorkulífeyrisþega og aldraðra, fatlaðs fólks, fæðingarorlofs og málefni fjölskyldna. Þá eru hjá ráðuneytinu málaflokkar vegna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, framhaldsfræðslu og stjórnsýslu félagsmála á öðrum málefnasviðum.

Fjárheimildir ráðuneytisins samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2023 nema tæpum 285 milljörðum kr. eða um 22% af heildarútgjöldum ríkissjóðs og aukast um 4 milljarða kr. frá fjárlögum yfirstandandi árs. Þetta samsvarar 1,5% hækkun útgjalda á milli ára að teknu tilliti til launa- og verðlagsbóta og flutnings verkefna til nýrra ráðuneyta samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu Stjórnarráðsins. Án launa- og verðlagsbóta er lækkun á fjárheimildum ráðuneytisins tæpir 16 milljarðar kr. og stafar það að mestu af spá um minna atvinnuleysi.

Stærsti hluti útgjalda félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins eru útgjöld vegna tilfærslukerfa og í frumvarpi til fjárlaga 2023 nema útgjöld vegna almannatrygginga, atvinnuleysisbóta og fæðingarorlofs um 263 milljörðum kr. og telst það vera um 20% af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Á árinu 2023 er gert ráð fyrir 3 milljarða kr. auknum útgjöldum vegna 3% fjölgunar ellilífeyrisþega. Gert hefur verið ráð fyrir 2,5% fjölgun örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, en þar sem örorkulífeyrisþegum fjölgaði ekki á liðnu ári, árið 2021, jafnast það út og er því ekki kerfislægur vöxtur á málefnasviði örorku, sem verður að teljast jákvætt.

Þá er í samræmi við stjórnarsáttmála stefnt að því að einfalda örorkulífeyriskerfið svo það verði skilvirkara, gagnsærra og réttlátara og afkoma örorkulífeyrisþega verði bætt með það að markmiði að bæta sérstaklega kjör þeirra sem lakast standa. Stefnt er að því að gera þetta í áföngum á kjörtímabilinu og í frumvarpi til fjárlaga 2023 eru stigin skref í þessa átt þar sem 430 millj. kr. verður varið til eflingar vinnumarkaðsúrræða til handa fólki með skerta starfsgetu með það að markmiði að stuðla að fjölbreyttari starfstækifærum fyrir einstaklinga. Þessar fjárheimildir koma fram á málefnasviði vinnumarkaðar og stjórnsýslu félagsmála.

Það er einnig vert að geta þess að tímabundin fjárheimild að fjárhæð 320 millj. kr. vegna NPA-þjónustu er gerð varanleg í ramma.

Á málefnasviði 30, vinnumarkaður og atvinnuleysi, lækka fjárheimildir um 30% frá fjárlögum yfirstandandi árs vegna minnkandi atvinnuleysis og er gert ráð fyrir að sú þróun haldi áfram. Í ráðuneytinu stendur nú yfir endurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar og er frumvarp um heildarlög á þingmálaskrá vetrarins.

Á næsta ári taka gildi ný lög um sorgarleyfi en þar er foreldrum tryggt svigrúm til sorgarúrvinnslu í kjölfar barnsmissis. Lögunum er einnig ætlað að auka líkur á því að foreldrar geti átt farsæla endurkomu á vinnumarkað og tekið virkan þátt í samfélaginu í kjölfar barnsmissis. Í fjárlagafrumvarpinu er tryggð fjárheimild að fjárhæð 168 millj. kr. af útgjaldasvigrúmi ráðuneytisins svo standa megi straum af útgjöldum vegna gildistöku laganna.

Þá hækkar fjárheimild Fæðingarorlofssjóðs um 2,6 milljarða kr. á árinu 2023 vegna aukins fjölda fæddra barna ásamt áhrifa af breytingum á fæðingarorlofskerfinu sem gerðar hafa verið á síðustu árum og felast í lengingu orlofsins í 12 mánuði og hækkunar hámarksgreiðslna.

Eins og fram kemur í stjórnarsáttmála verður farið í heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk og er það unnið í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið. Vinna starfshóps er hafin og fram til ársins 2025 verður í heildina varið 200 millj. kr. til þróunar og innleiðingar verkefnisins.

Um síðustu áramót tók félags- og vinnumarkaðsráðuneytið við þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd frá dómsmálaráðuneytinu. Þessi málaflokkur fer ört vaxandi og í ráðuneytinu er nú hafin undirbúningsvinna við gerð heildarstefnumótunar í málaflokknum, sem hefur skort hingað til.

Framhaldsfræðsla fluttist til ráðuneytisins við uppskiptingu Stjórnarráðsins. Í ráðuneytinu stendur fyrir dyrum stefnumótun á þessu sviði í víðtæku samráði við hagsmunaaðila en þar þarf sérstaklega að huga að íslenskukennslu fyrir innflytjendur, námi fyrir fatlað fólk á öllum skólastigum og áskorunum vegna samfélagsbreytinga eins og aukinnar tæknivæðingar og loftslagsbreytinga.

Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar um fjármögnun félagslegra aðgerða vegna langtímaáhrifa heimsfaraldursins verður á árunum 2023–2025 varið 380 millj. kr. árlega til styðja við fólk í viðkvæmri stöðu. Fjármagnið verður nýtt til margs konar verkefna, þar með talið aukinnar þjónustu við langtímaatvinnulausa, verkefna sem draga eiga úr einangrun viðkvæmra hópa, einmanaleika og félagslegri einangrun eldra fólks og fatlaðs fólks. Þá verður áhersla lögð á að tryggja aðgengi þolenda og gerenda ofbeldis að viðeigandi þjónustuúrræðum auk þess sem bætt verður úr stafrænu aðgengi og tækni- og tölvulæsi fyrir fatlað fólk. Í ráðuneytinu er unnið að útfærslu fyrrgreindra verkefna.