Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:14]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Bakkabræður mokuðu á sínum tíma sandi í botnlausa tunnu. Það skilaði þeim engum árangri. Þeir voru ekkert betur settir við það. Ríkisstjórnin er búin að uppgötva að hún geti mokað hellingspeningum í almannatryggingakerfið og hælt sér af því og sagt: Vá, við ætlum að setja 9% í kerfið núna. Þeir vita að það er allt í lagi vegna þess að það skilar sér ekki í vasa þeirra sem mest þurfa á að halda. Á sama tíma tryggja þeir nefnilega ekki að tekið sé á skerðingum og keðjuverkandi skerðingum sem eru út um allt kerfið. Þeir eru búnir að búa til kerfi sem er svo bútasaumað að þegar þeir bæta 9% bút inn í kerfið þá bródera þeir líka inn skerðingar sem valda því að fólk fær ekki neitt vegna þess að þeir hækka ekki skerðingarmörkin. Þeir passa sig á því. Þeir vita nákvæmlega hvernig þeir eiga að sjá til þess að þeir sem eru inni í þessu kerfi fái ekkert út úr því.

Eina leiðin, það er margbúið að segja það, við erum búin að sanna það hér á þingi og ríkisstjórnin er búin að viðurkenna það, sem skilar því að eitthvað af þessum fjármunum fari til þessa fólks er að þeir séu skatta- og skerðingarlausir. Hvað segir það okkur? Það segir okkur að ríkisstjórnin ætti, ef hún ætlar virkilega að sjá til þess að þetta fólk fái kjarabætur, að taka á því og hætta að skatta það. Verst setta fólkið okkar er að borga 40.000–70.000 kr. í skatta á hverjum mánuði. Ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar hann að taka á því og sjá til þess frekar að þetta skili sér beint í vasa þeirra sem á þurfa að halda en renni ekki í gegnum gegnumstreymiskerfi almannatrygginga beint í ríkissjóð aftur?