Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:36]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör og fagna því að það sé mikil vinna í ráðuneytinu og mikil vinna fram undan varðandi þetta. Það er greinilegt að við erum sammála um mikilvægi þessarar þjónustu við þolendur ofbeldis. Fyrir mér er óhugsandi að vera án hennar. Þess vegna velti ég fyrir mér, sem hæstv. ráðherra kom aðeins inn á, hver framtíðarsýnin er í þessum málaflokki og sú vinna er í gangi. Þá er akkúrat þessi punktur: Er sanngjarnt að gera ráð fyrir því til framtíðar að félagasamtök haldi uppi þessari nauðsynlegu þjónustu eða þurfum við stöðugri aðkomu ríkis og sveitarfélaga? Mig langar að spyrja um akkúrat þetta, sem hæstv. ráðherra hefur komið aðeins inn á: Hver er framtíðarsýnin varðandi þennan málaflokk og stuðning við þessi félagasamtök, sem að mörgu leyti hefur verið svarað. En þá er líka ein hugleiðing til ráðherra um það hvort það sé kannski kominn tími til að gera breytingar á lögum um félagslega aðstoð með þeim hætti að sú þjónusta sem veitt er í þolendamiðstöðvum verði gerð að skyldubundinni þjónustu fyrir þolendur á vegum ríkis og sveitarfélaga, t.d. með þolendamiðstöðvum í hverjum landsfjórðungi eða eitthvað slíkt, og með deildri þátttöku sveitarfélaga og ríkis að fjármögnun þeirra. Er þetta eitthvað sem ráðherra gæti hugsað sér og væri jafnvel tilbúinn að taka samtal um áfram? Eða kannski þegar vinna í gangi í ráðuneytinu að skoða þetta?