Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:41]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að ræða þessa mikilvægu málaflokka sem undir hann heyra. Mig langar til að grípa niður í málaflokki fólks á flótta, sem er auðvitað mjög viðkvæmur málaflokkur og er málaflokkur þar sem við þurfum að vinna af mikilli virðingu, ekki síst við fólk sem er í þeirri stöðu að þurfa að leita hingað eftir vernd. Mig langar að segja frá því að þann 8. desember 2020 áttu fulltrúar Reykjanesbæjar, m.a. sá sem hér stendur, fund með allsherjar- og menntamálanefnd þar sem gerðar voru athugasemdir við þau vinnubrögð Útlendingastofnunar að staðsetja mikinn fjölda flóttafólks án samkomulags við sveitarfélagið í Ásbrúarhverfinu svokallaða, sem er gamla herstöðin. Þetta hverfi hefur verið í uppbyggingarfasa og er því frekar viðkvæmt félagslega. En það er skemmst frá því að segja að því miður breyttist bara nákvæmlega ekki neitt eftir þennan fund. En nú er staðan sú að ráðuneyti félagsmála hefur, að ég held í samstarfi við Vinnumálastofnun, tekið við þessum málaflokki og ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort einhverjar breytingar hafi verið gerðar til að laga þessa stöðu sem hefur verið í ósætti við sveitarfélagið.