Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:52]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég byrja á því að þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir samtalið hér í dag. Í fyrsta lagi varðandi það hvort það hafi verið rætt að fara í vinnu varðandi mögulega, það er kannski sérkennilegt að nota orðið kvótasetningu en ég ætla samt að segja það hér, þ.e. að sveitarfélög taki t.d. í samræmi við fjölda íbúa á móti flóttafólki í sömu hlutföllum eða eitthvað slíkt. Ég hef vissulega nefnt það við ríkisstjórnarborðið að það sé eitthvað sem önnur ríki geri, sum hver, en það er ekki vinna hafin í ráðuneytinu við þetta. Ég vona að þetta svari spurningu hv. þingmanns.

Ég held að við höfum öll áhyggjur af því að sá stóraukni fjöldi fólks sem hingað er að koma valdi auknu álagi á kerfin okkar. Þá er ég að tala um félagsþjónustu sveitarfélaga, þá er ég að tala um húsnæðismálin. Við höfum hingað til náð að halda í við þetta, sem betur fer, því að ég veit, og það hefur komið fram hjá fleiri þingmönnum, að við erum öll sammála um að taka vel á móti því fólki sem hingað kemur. Það er alltaf markmið okkar. Af því að hv. þingmaður spyr mig hvort ráðherrann sjái til lands í þessum málum þá gerir ráðherrann það eins og sakir standa. Sérstaklega með tilliti til fjárveitinga er talað um að það séu 2 milljarðar kr. í almennum varasjóði til að mæta fjölgun umsækjenda um alþjóðlega vernd, bæði vegna þess sem snýr að málsmeðferð Útlendingastofnunar og síðan þjónustu við umsækjendur. Þessir 2 milljarðar eru alla vega teknir frá vegna þess að við búumst við aukningu en það er mikil óvissa um hve mikil hún verður, þannig að þetta varð niðurstaðan, að setja inn í varasjóð.