Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:54]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Kerfin ráða enn við þetta, segir hæstv. ráðherra. Það er svona á mörkunum t.d. miðað við þær fréttir sem við heyrðum nýlega frá Hafnarfirði og höfum heyrt reglulega frá Reykjanesbæ. Hver er afstaða ráðherrans til þess að fara í heildstæða úttekt á, ja, viðnámsþróttur er nú kannski ekki rétta hugtakið, en þanþoli velferðarkerfanna sem taka á móti þeim hópum og því fólki sem hingað kemur? Þá er ég að tala um m.a. menntakerfið, félagslegu kerfin, heilbrigðiskerfið og auðvitað húsnæðismálin, það fer ekki fram hjá neinum ástandið sem er á húsnæðismarkaði. Í þessari fréttatilkynningu ríkislögreglustjóra frá því í morgun er bent á að bæði skammtímaúrræði og langtímaúrræði sem kerfið hefur úr að spila virðast vera orðin fullnýtt nú þegar og flaggað er áhyggjum af því að það þurfi að horfa til annarra lausna í þeim efnum.

En spurningin er sem sagt: Hver er afstaða ráðherrans til þess að farið verði í heildstætt mat á því hvað þessi stoðkerfi og velferðarkerfi okkar ráða við þannig að við tökum raunverulega vel á móti þeim sem við tökum á móti og styðjum aðlögun þeirra að íslensku samfélagi í stað þess að ætla okkur um of?