Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:32]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég verð að byrja á því að spyrja heilbrigðisráðherra spurningar sem er kannski svolítið þurr, ég veit það ekki, en mér finnst hún skipta miklu máli. Það kemur fram í fjárlagafrumvarpinu að það sé 4 milljarða kr. aðhaldskrafa á spítalann. En þegar fjármálaráðherra var spurður út í þetta í gær þá vildi hann meina að þetta væri ekki aðhaldskrafa heldur einhvers konar tilfærsla á byggingarpeningum, sem ég verð að viðurkenna að mér þykir stórfurðulegt svar með það í huga að það stendur í fjárlagafrumvarpinu að þetta er aðhaldskrafa. Þannig að ef þetta er rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra, sem ég vona að það sé, ég vona að hann viti hvað hann er að tala um, þá er þetta svakalega ógagnsæ og villandi framsetning ef þetta er tilfærsla á byggingarpeningum. Og það myndi bara útskýra 2 milljarða, ekki 4. Hvað með hina 2 milljarðana og af hverju í ósköpunum er þetta kallað aðhaldskrafa? Ég spyr líka hæstv. heilbrigðisráðherra vegna þess að hann er náttúrlega fyrrverandi formaður fjárlaganefndar. Það væri áhugavert að heyra hvernig hann les þetta. Spítalinn er þegar með aðhaldsaðgerðir í gangi til að greiða upp gamlan halla þannig að aukaaðhald væri aukaþungi sem ég held bara að spítalinn gæti ekki borið. Ég vona að þetta sé ekki rétt. En hvernig skilur hæstv. ráðherra og fyrrverandi formaður fjárlaganefndar þessa 4 milljarða kr. aðhaldskröfu á spítalann í fjárlagafrumvarpi? Það skiptir máli að þetta sé skýrt. Það skiptir máli fyrir okkur þingmenn til að geta sinnt okkar vinnu og fyrir fjölmiðla sem þurfa að fjalla um þetta. En þetta skiptir líka máli fyrir almenning sem vill kannski mögulega að senda inn umsagnir um málið og geta tekið þátt í lýðræðislegri umræðu þannig að ég bið hæstv. ráðherra að útskýra það fyrir mér á eins gagnsæjan og aðgengilegan hátt og hann getur.