Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:41]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held mig á kunnuglegum slóðum. Í nýútkomnu fjárlagafrumvarpi má lesa að fjármagn til úrræða fyrir fólk með fíknivanda lækkar á milli ára. Þessi viðkvæmi hópur stendur einna verst í okkar samfélagi, hvernig sem við lítum til aðstæðna hans. Allt of hátt hlutfall ungs fólks með fíknivanda fellur frá vegna ofneyslu, sjálfsvíga eða annarra afleiddra veikinda fíknivandans. Fíklar eru líklegri til að búa við sára fátækt, leita sér síður almennrar heilbrigðisþjónustu og standa höllum fæti á húsnæðis- og leigumarkaði. Fíknivandi er sjaldnast einkamál sjúklingsins heldur eru fjölskyldur, oft börn, settar í vonlausa stöðu þegar úrræðin eru fá og illa fjármögnuð. Ýmislegt gott má þó benda á og langar mig sérstaklega að vísa til skaðaminnkandi úrræða eins og verkefnisins Frú Ragnheiðar og eigum við að horfa enn frekar til úrræða af þeim toga.

Samkvæmt frumvarpinu munu fjárheimildir til málaflokksins lækka um 198 millj. kr. vegna tímabundinna framlaga til SÁÁ, Samhjálpar og til vinnu gegn fíknisjúkdómum sem Alþingi veitti í eitt ár, að ég held í tengslum við Covid. Aðhaldskrafa er svo upp á 131,4 millj. kr., útfært í hlutfallslegri skiptingu niður á stofnanir og verkefni málaflokksins. Nú hefur sú skoðun mín komið fram að ég er ekki sammála því hvernig þessum málum er háttað og ég tel ekki heppilegt að félagasamtök eða einkaaðilar sjái um þessa mikilvægu heilbrigðisþjónustu. En svona er staðan á þessum málum í dag og langar mig því að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Eru þeim meðferðarúrræðum sem til staðar eru tryggðir þeir fjármunir sem þarf til að standa undir þjónustu við fólk með fíknisjúkdóma?