Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jódísi Skúladóttur fyrir spurninguna um stöðuna á fíkniefnavandanum. Hún kemur inn á aðhaldskröfu og endurhæfingarlið og þessi einskiptisframlög. Eins og lögin segja: Þegar það koma einskiptisframlög þá eru þau tímabundin og falla niður. Og þá er rökrétt að spyrja: Er verið að tryggja fjármagn til meðferðarúrræða? Við erum auðvitað með samning, og hv. þingmaður kom inn á það, og hefur gert það áður í samtali við þann sem hér stendur, en við getum vísað í samning sem við erum með fyrir hönd ríkisins í gegnum Sjúkratryggingar við SÁÁ. Hann er auðvitað í gildi. Það er í raun og veru stóri samningurinn sem á að fanga verkefnið. Þar hefur byggst upp mikil þekking og þjónusta eins og við þekkjum. Þá höfum við einnig sett fjármuni í sérstök verkefni eins og með samningi Sjúkratrygginga við Frú Ragnheiði, sem hv. þingmaður kom inn á hér, og nú styrkveitingar til aðila sem veita stuðningsúrræði og það er líka að finna í öðrum ráðuneytum þannig að við þurfum einhvern veginn að ná að taka þetta allt saman. En þetta er kannski birtingarmynd á því ógagnsæi sem við ræðum oft hér, og er ekki beinlínis að finna í fjárlagafrumvarpinu. Mér finnst mjög áhugavert það sem hv. þingmaður kemur inn á, sem er hversu mikilvæg opin og fordómalaus umræða er, nú og áfram. Mér finnst þetta hafa verið að færast til betri vegar. Það er auðvitað lykillinn að því, af því að þetta hangir saman, geðsjúkdómar og fíknisjúkdómar, (Forseti hringir.) og við höfum rætt það hér undir þessum lið og ég skal halda áfram að reyna að svara betur í seinna andsvari.