Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:53]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni hér fyrir mjög kjarnaða spurningu. Þetta er dæmi um það hvernig við eigum að reyna að rýna hvað er á bak við tölurnar. Það er auðvitað mikilvægt að við erum að horfa á málefnasvið 23 þar sem koma fram sjúkrahúsin og þar er blandað saman rekstri og fjárfestingu og við sjáum í tölunum að þá er um að ræða aukningu. Það er breyting á milli ára. Ef við tökum raunvöxt og útgjaldasvigrúm inn í það þá erum við að tala um þessa rauntölu sem er 1,8%. Ég myndi alltaf segja að við þyrftum raunaukningu og svigrúm af því að þetta er kvikur rekstur. Heilbrigðisþjónusta er bara þannig í eðli sínu. Okkur skortir gögn í samhengi við þá þróun sem hefur átt sér stað, ferðamannafjölda, aldurssamsetningu, hún sígur yfir okkur, og mannfjölda og hvernig hann leggst eftir svæðum. Við þekkjum öll hvernig við finnum fyrir álaginu á heilbrigðisstofnunum á Suðurnesjum, á Suðurlandi, í Borgarfirði. Við erum að horfa á útgjöld málefnasviðsins aukast í heildina um 2,7 milljarða. Í rekstrinum eru launabæturnar fyrir næsta ár, þær eru komnir inn á þetta ár, geymdar á varasjóði. Við erum því raunverulega bara að horfa hér á verðlagsbætur. Þá getum við hugsað okkur að tölurnar allar stækki sem því nemur. Þetta er aðeins misjafnt eftir heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsrekstri og um hvaða rekstur að ræða, (Forseti hringir.) en þetta liggur á bilinu 60–70%, þ.e. laun sem hlutfall af rekstrarútgjöldum.