Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:00]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Hæstv. ráðherra nefndi hér áðan áhrif ferðamanna og vaxandi fjölda þeirra á heilbrigðiskerfið og heilbrigðisþjónustu og þann kostnað sem því fylgir. En í morgun lýsti ríkislögreglustjóri yfir hættustigi á landamærunum vegna mikils fjölda hælisleitenda og fyrirsjáanlegrar mjög verulegrar aukningar í þeim efnum. Þetta er ekki allt vegna komu flóttamanna frá Úkraínu sem er í rauninni á margan hátt sértilvik, tímabundið neyðarástand í samræmi við það sem stefnu Sameinuðu þjóðanna í flóttamannamálum var ætlað að takast á við. Það sem ég spyr hæstv. ráðherra um er kostnaðurinn í ljósi yfirlýsinga hans um kostnaðinn við að sinna ferðamönnum: Hver er kostnaðurinn við móttöku hælisleitenda? Þeir geta komið hingað af ýmsum ástæðum og margir að freista gæfunnar og fjöldi þess fólks sem það gerir fer mjög vaxandi vegna þeirra skilaboða sem íslensk stjórnvöld hafa sent út, eins og hæstv. dómsmálaráðherra lýsti hér í morgun, að ástæðan fyrir því að hlutfallslega miklu fleiri sæki hingað sé sú að við bjóðum upp á miklu meira en flestir aðrir. Hver er kostnaðurinn við þetta? Hann hlýtur að vera einhver því að áhrifin af þessu, eins og hæstv. dómsmálaráðherra lýsti í morgun, eru mjög veruleg og hafa nú orðið til þess að ríkislögreglustjóri lýsti yfir hættustigi á landamærunum vegna fyrirsjáanlegrar þróunar.