Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:03]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir að koma inn á þetta og draga fram þessa mynd hér þegar er búið að taka stöðuna upp á hættustig af því að vissulega skiptir miklu máli að öll okkar kerfi geti tekið á móti. Þetta er sanngjörn spurning um það hver kostnaður fyrir heilbrigðiskerfið er. Í þessu samhengi erum við með samræmingarnefnd og hóp úr þremur ráðuneytum, félagsmálaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti. Síðan erum við með fulltrúa þar inni. Fyrirkomulagið á þessu er þannig að við förum með hvern og einn í gegnum heilsufarsskoðun og þá vísa ég til stórs hluta af þessum hóp sem er móttaka þeirra sem eru að koma frá Úkraínu. Þeir þurfa að fara í gegnum ákveðna heilsufarsskoðun þegar þeir koma til landsins og er sá kostnaður tekinn sérstaklega og greiddur til samræmis við kostnaðinn við að fara með hvern og einn í gegnum þessa skoðun. Þetta er tekið reglubundið saman. Þetta eru um 1.500 einstaklingar hingað til. Þeir verða vafalítið fleiri og við reynum að vanda okkur við það. Það væri óvarlegt af mér að flagga tölunum, þær koma svona jöfnum höndum. Það er kannski vika síðan ég sá síðasta yfirlit og það er alla vega haldið vel mjög vel utan um kostnaðinn þegar kemur að heilbrigðiskerfinu.