Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:17]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Við höfum raunar átt skoðanaskipti fyrr hér á vettvangi þingsins um nákvæmlega þetta mál en þá hafði þingmálaskrá mín fyrir þetta þing ekki komið fram, eðlilega. Í henni kemur fram, eins og hv. þingmaður bendir á, fyrirheit og áform um að leggja fram frumvarp á 153. þingi um að setja viðurlög við brotum á fiskveiðistjórnarkerfinu í samræmi við skýrslu Ríkisendurskoðunar sem liggur fyrir og hefur legið fyrir um allnokkurt skeið. Ég er ekki ósammála hv. þingmanni eða þeirri skýrslu sem hv. þingmaður vísar til um það með hvaða hætti skuli bregðast við þeirri stöðu. Ég vil hins vegar segja það að í ljósi þess hversu mikilvægt það er að undirbyggja löggjöfina vel þá kaus ég, frekar en að gera ráð fyrir því að frumvarpið væri tilbúið alveg á fyrstu vikum þingsins, að setja það frekar á seinni part komandi þings en vonast auðvitað til þess að það líti dagsins ljós fyrr en síðar því að ég tel að þetta sé afar mikilvægur þáttur í umbúnaði fiskveiðistjórnarkerfisins. Auk þess mun ég í næstu viku kynna verkefni sem lýtur að því að fara sérstaklega í saumana á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi.