Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:31]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég tel mig knúinn til að spyrja hæstv. matvælaráðherra ráðherra úti í auðlindir þjóðarinnar, sjálfa þjóðarauðlindina, auðugustu fiskimið heims sem eru samkvæmt lögum í eign þjóðarinnar. Í fjárlagafrumvarpinu er áætlað að tekjur ríkissjóðs vegna áfengisgjalds verði 25,5 milljarðar íslenskra króna. Í frumvarpinu segir einnig að tekjur ríkissjóðs af veiðileyfagjaldi séu áætlaðar 5 milljarðar kr. Þetta þýðir að tekjur ríkissjóðs af áfengisgjaldi verða þrefalt meiri en af veiðigjaldi, 25,5 milljarðar á móti rúmum 8 milljörðum. Hvernig stendur á því að við getum ekki fengið meira fyrir auðlindarentuna af sjávarauðlindinni en af áfengisdrykkju landsmanna? Áfengi er ekki þjóðareign. Sjávarauðlindin er það hins vegar. Hvernig stendur á þessu? Hér skila sjávarútvegsfyrirtækin milljarðahagnaði ár eftir ár og jafnvel tugmilljarða án þess að þjóðin fái nema brot af ábatanum. Í ofanálag er svo kvótakerfið búið að rústa sjávarbyggðum en engu að síður má aldrei gera neitt fyrir strandveiðimenn. Ég sit í samráðshópi hæstv. ráðherra um sjávarútveginn. Þrátt fyrir það getum við gripið strax til aðgerða sem geta skilað miklum árangri, aðgerða sem allir sjá nú þegar að þörf er á. Þessar aðgerðir eru í fyrsta lagi hækkun veiðileyfagjalds, í öðru lagi aukið frelsi til handfæraveiða. Hækkun veiðileyfagjaldanna er ekki flókið mál. Við hækkum einfaldlega gjaldið líkt og gert er með öll önnur gjöld ár hvert. Við vitum öll að það þarf að auka frelsi til handfæraveiða og tryggja strandveiðum a.m.k. 48 veiðidaga. Af hverju getum við ekki sammælst um það strax í stað þess að bíða eftir niðurstöðum starfshóps hæstv. ráðherra? Það er ekki hægt að setja svona einföld mál í nefnd. Við erum kosin til að hafa skoðanir og til að fylgja fram stefnu okkar flokka en ekki útvista því til starfshópa eða nefnda. Þetta eru sáraeinföld mál.