Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:39]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eitt verð ég nú að leiðrétta í máli hv. þingmanns þegar hann fullyrðir það hér í ræðustóli Alþingis að veiðigjöldin hafa verið lækkuð. Það er mikilvægt að átta sig á því að veiðigjöldin eru afkomutengd þannig að þegar afkoman batnar þá hækka veiðigjöldin. (Gripið fram í.) Að vísu er snýst þetta um ákveðna tímatöf í þessu vegna þess að við erum tveimur árum á eftir. En það breytir því ekki að við eigum að vera óhrædd við að ræða hvort núverandi gjaldtaka sé réttlát og ég vil að við gerum það. Við sjáum stór og öflug fyrirtæki greiða sér mikinn arð á sama tíma og umtalsvert hærri stundum en það sem þau greiða í veiðigjöld. En við verðum samt að hafa það í huga, og ég hef margoft sagt það að þegar ég segi að það sé allt undir í þessari umræðu, að veiðigjöldin eru þar ekki undanskilin. Við viljum virkilega að skoða það vegna þess að það er partur af þeirri umræðu sem ég veit að hv. þingmaður hefur haft mikinn áhuga á og tekið þátt í um árabil, þeirri umræðu sem er gegnumgangandi í íslensku samfélagi að kerfið eins og það er sé ekki réttlátt (EÁ: Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna er búin að segja …) Og þegar hv. þingmaður kýs að fella dóma um stjórnmálaskoðanir annarra flokka þá afþakka ég þá dóma (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) og bið um að við séum hér að tala fyrir okkur sjálf. Ég ræði um mína afstöðu og mínar skoðanir sem endurspeglast í þeirri aðferð sem ég beiti hér sem ráðherra sjávarútvegsmála og hv. þingmaður talar væntanlega fyrir sinni sýn í málaflokknum.