Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:57]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt að hér er um að ræða mjög stóra umræðu og alltumlykjandi enda höfum við öll sterkar taugar til þess sem hér er undir. Einmitt þess vegna fannst mér vera tilefni til að nýta þá reynslu sem ég hef af því að sitja í ráðuneyti til að hugsa dálítið ítarlega um aðferðafræðina, ekki bara um markmiðið eða hin pólitísku markmið með því sem hér væri til umfjöllunar, heldur ekki síður að freista þess að nálgast þetta með nýjum hætti, breiðar og með fleiri fundum o.s.frv., sem ég hef farið ítarlega yfir hér og ætla ekki að eyða tímanum í. Hv. þingmaður spyr hreint út: Hver á að verða afurðin? Hvað er það sem ráðherrann ætlar að koma með? Í fyrsta lagi munu hóparnir koma með fyrstu drög að einhvers konar afurð til skoðunar og útfærslu síðar á þessu ári þannig að við erum að tala um að við getum fyrr en síðar farið að vinna með og ræða um afurðir þeirra hópa sem þarna eru að vinna. Þeir eru auðvitað að fjalla um allt frá því að tala um samfélagssáttina og yfir í það að tala um umgengni við sjávarauðlindina eða tækifæri í sjávarauðlindinni og til lengri framtíðar. En í öllum þeim pappírum sem hafa verið undir í þessari umræðu hefur verið talað um heildarendurskoðun og það er það sem við gerum ráð fyrir að verði einhvers konar afurð þessarar vinnu. Annars vegar þarf mjög nauðsynlega að leggja fram frumvarp einfaldlega til að breyta bútasaumi í heildstæða löggjöf. Hv. þingmaður þekkir það vel hversu óþægilegt það getur verið beinlínis að hafa brotakennda löggjöf. En ég get væntanlega, virðulegur forseti, svarað þessu betur í síðara svari.