Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:02]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég deili því með hv. þingmanni að hafa afar mikinn áhuga á veruleikanum í stjórnmálum og ég held að þegar öllu er á botninn hvolft skipti hann mjög miklu máli. Þarna eru undir bara mjög stórar spurningar. Það hefur hins vegar alltaf verið mín afstaða að auðlindum eigi ekki að úthluta með varanlegum hætti og ég held að það sé ekki stórfrétt þó að ég segi það á mjög afgerandi hátt. Hins vegar er ég ekki reiðubúin til að ræða lið fyrir lið í hverju heildarendurskoðunin felst. Ég held að það væri ekki ráðlegt að ég legði þær línur hér í ræðustóli Alþingis undir umræðum um fjárlagafrumvarpið þar sem það er afar mikilvægt að við gætum að því að sem flest sjónarmið nái að borðinu í þessari vinnu. Það breytir því ekki að í raun og veru er bara afurðin sjálf þegar öllu er á botninn hvolft sem sannar eða afsannar að til einhvers hafi verið lagt af stað. Við gerum okkur grein fyrir hinum pólitíska veruleika sem er í þessu samfélagi og það að pólitískir flokkar hafa mismunandi afstöðu í þessu máli. Ég tel að það sé samt tilraunarinnar virði að við reynum að ná saman í því og það séu tiltekin atriði sem við getum leitt í jörð, í fyrsta lagi að koma löggjöfinni í viðunandi horf tæknilega en hins vegar að við höldum hinum félagslegu byggðalegu sjónarmiðum til haga sem og því að lögin endurspegli sameiginlegan skilning þjóðarinnar á því að hér sé sanngirni höfð að leiðarljósi.