Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég get ekki annað en tekið undir áhyggjur hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar af stefnu ríkisstjórnarinnar í landbúnaðarmálum. Það hefur verið sótt að íslenskum landbúnaði öll þau ár sem þessi ríkisstjórn hefur setið og raunar lengur. Óhagstæðir tollasamningar gerðir, kröfur til greinarinnar á grundvelli Evrópureglna umfram það sem Evrópusambandið sjálft fylgir eftir, óhagstæðir búvörusamningar, heimild til innflutnings á ófrystu og ógerilsneyddu kjöti og ostum og svo mætti lengi telja. Birtist m.a. í því að það er gert ráð fyrir stiglækkandi framlögum til matvælaframleiðslu á sama tíma og ríkisstjórnin talar um mikilvægi fæðuöryggis sem skýtur óneitanlega skökku við.

Það veldur mér sérstökum áhyggjum að nú boði ríkisstjórnin að enn verði sótt að landbúnaði með það beinlínis að markmiði að draga úr framleiðslu á a.m.k. ákveðnum sviðum og það með vísan til loftslagsmála. Megum við vænta þess sama hér og til að mynda í Hollandi þar sem krafa um samdrátt í notkun áburðar hefur sett matvælaframleiðslu þar í landi í mikið uppnám? Því miður eru vísbendingarnar í þá veru miðað við það sem ríkisstjórnin hefur gefið frá sér í skýrslum um stefnu í loftslagsmálum.

Til viðbótar við þessa spurningu um hvort ætla megi að dregið verði úr áburðarnotkun og þar með matvælaframleiðslu á Íslandi spyr ég hæstv. ráðherra einfaldlega: Gerir hæstv. ráðherra ráð fyrir því að kjötframleiðsla á Íslandi muni aukast, standa í stað eða minnka um fyrirsjáanlega framtíð?