Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Þegar lítið er um svör og menn geta ekki einu sinni fundið upp nýjar leiðir til að snúa út úr þá er gripið í gamalkunn ráð, eins og að tengja mig við þá tollasamninga sem núverandi samráðherra hæstv. ráðherra í ríkisstjórn (Gripið fram í.) gerði, án samráðs við ríkisstjórn og við höfum síðan lagt til að verði afturkallaðir en það verið fellt og svæft af núverandi ríkisstjórn sem er stuðningsyfirlýsing við núverandi fyrirkomulag. En af því að ég heyri að hæstv. ráðherra vill ekki svara spurningum um til að mynda framtíð kjötframleiðslu á Íslandi þrátt fyrir að vera matvælaráðherra, þá sný ég mér að öðru starfssviði hæstv. ráðherra — sjávarútvegsmálunum.

Hæstv. ráðherra sagði í umræðum hér áðan að það væri ekki einfalt að breyta sjávarútvegskerfinu. Reyndar orðaði hæstv. ráðherra það þannig að hún hafni því að það sé einfalt að breyta kerfinu. Þetta reyndar vissu nú flestir fyrir og hver hefur haldið öðru fram? Jú, kannski hæstv. ráðherrann sjálfur í fyrri tíð sinni hér sem alþingismaður og ráðherra, sem hefur haft skoðun á þessum málaflokki lengi. En nú, verandi orðinn ráðherra málaflokksins, er þetta orðið erfitt að því marki að það sem við heyrum helst frá ráðherranum um framtíð þessarar undirstöðuatvinnugreinar landsins eru vangaveltur um hvað hæstv. ráðherra myndi gjarnan vilja sjá gerast.

En hvers er að vænta? Hver eru áform hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála um stjórn fiskveiða og gjaldtöku af fiskveiðum á Íslandi? Hæstv. ráðherra hefur nú verið í því embætti í meira en ár, verið í ríkisstjórn árum saman og enn lengur lýst skoðunum sínum á íslenskum sjávarútvegi. Hvenær megum við vænta þess að ráðherra sjávarútvegsmála lýsi áformum sínum og stefnu í greininni?